9. umferð: Önnur þrenna í sögu FH - Lillý með stóran áfanga

Ída Marín Hermannsdóttir skoraði þrjú mörk gegn Tindastóli.
Ída Marín Hermannsdóttir skoraði þrjú mörk gegn Tindastóli. mbl.is/Eyþór Árnason

Ída Marín Hermannsdóttir varð í gærkvöld aðeins önnur konan í sögu FH til að skora þrennu fyrir félagið í efstu deild kvenna í knattspyrnu en þá lauk 9. umferð Bestu deildarinnar.

Ída skoraði þrjú mörk þegar FH vann Tindastól 5:1 í Kaplakrika - reyndar með fyrirvara um hvort annað mark hennar verði úrskurðað sjálfsmark eða ekki. Leikskýrslan segir að það hafi verið sjálfsmark en ekki var annað að sjá en boltinn hefði verið á leið í markið eftir skot Ídu.

Eina þrenna FH-konu fram að því kom fyrir tólf árum, árið 2013, þegar Ashlee Hincks skoraði þrjú mörk fyrir Hafnarfjarðarliðið í sigri á Þrótti úr Reykjavík, 5:2.

Lillý Rut Hlynsdóttir, miðvörður Vals, lék sinn 200 leik í efstu deild á sunnudaginn þegar Valskonur biðu lægri hlut gegn Fram, 2:1, á Hlíðarenda. Hún er 24. konan frá upphafi sem nær að spila 200 leiki í deildinni en af þeim eru 110 fyrir Þór/KA, 8 fyrir FH og nú 82 fyrir Val.

Helena Ósk Hálfdánardóttir og Lillý Rut Hlynsdóttir náðu báðar stórum …
Helena Ósk Hálfdánardóttir og Lillý Rut Hlynsdóttir náðu báðar stórum áfanga í leik Vals gegn Fram. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Í sama leik lék Valskonan Helena Ósk Hálfdánardóttir sinn 100. leik í deildinni. Þar af eru 64 fyrir FH, 18 fyrir Fylki, 10 fyrir Breiðablik og nú 8 fyrir Val.

Sigur Fram gegn Val, 2:1 á sunnudaginn, er heldur betur sögulegur en hann er sá fyrsti hjá þeim bláklæddu gegn Hlíðarendaliðinu í 46 ár. Eini sigur Fram á Val í efstu deild kvenna þar til á sunnudaginn kom árið 1979, þá 3:1.

Markahæstar eftir 9 umferðir:

8 Berglind Björg Þorvaldsdóttir, Breiðabliki
7 Freyja Karín Þorvarðardóttir, Þrótti
7 Murielle Tiernan, Fram
6 Samantha Smith, Breiðabliki
6 Sandra María Jessen, Þór/KA
5 Birta Georgsdóttir, Breiðabliki
5 Makala Woods, Tindastóli
5 Maya Hansen, FH

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert