Dregið verður til fyrstu umferðar í undankeppni Meistaradeildar og Sambandsdeildar karla í fótbolta í dag. Drátturinn í Meistaradeildinni fer fram klukkan 12.00 að íslenskum tíma en í Sambandsdeildinni klukkan 14.00.
Breiðablik getur mætt Inter Club d’Escaldes frá Andorru, FC Differdange 03 frá Lúxemborg, Víkingi frá Færeyjum, Shelbourne frá Írlandi eða Egnatia frá Albaníu í fyrstu umferð undankeppni Meistaradeildarinnar.
Bæði Valur og Víkingur eru í fyrstu umferð undankeppni Sambandsdeildarinnar.
Valur getur mætt Flora Tallinn frá Eistlandi, KÍ Klaksvík frá Færeyjum, Larne FC frá Norður-Írlandi og Zalgiris frá Litháen.
Víkingar geta hins vegar mætt Cliftonville frá Norður-Írlandi, Malisheva frá Kósóvó, Nomme Kalju frá Eistlandi og Haverfordwest County frá Wales.
Bikarmeistarar KA fara beint í 2. umferð undankeppni Sambandsdeildarinnar en það er dregið í hana á morgun.