KA má spila á heimavelli í Evrópu

KA-menn mega spila á heimavelli í Evrópu.
KA-menn mega spila á heimavelli í Evrópu. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

KA má spila á heimavelli á Akureyri í 2. umferð Sambandsdeildar karla í knattspyrnu en þetta kemur fram í tilkynningu frá félaginu. 

Dregið verður til annarrar umferðar á morgun en sem bikarmeistari sleppir KA við að fara í fyrstu umferðina líkt og Víkingur og Valur. 

KA fékk undanþágu frá UEFA til að spila sinn heimaleik á heimavelli á Akureyri en fyrir tveimur árum þurftu KA-menn að spila sína heimaleiki á Framvellinum í Úlfarsárdal og Laugardalsvelli. 

Ein ástæða undanþágunnar er hin metnaðarfulla og öfluga uppbygging á KA-svæðinu, þar sem nú er unnið hörðum höndum að því að skapa fyrsta flokks aðstöðu sem uppfyllir alla alþjóðlega staðla. Þegar framkvæmdum lýkur mun KA búa yfir glæsilegum og fullbúnum heimavelli sem verður verðugur vettvangur fyrir framtíðarfótbolta á alþjóðlegu sviði.

Í sumar hafa sjálfboðaliðar á vegum KA unnið hörðum höndum að gera heimavöllinn hæfan til þess að fá náð fyrir augum UEFA og tókst það eftir gríðarlega vinnu sem lögð var í völlinn og umhverfi hans. KA vill sérstaklega þakka sjálfboðaliðunum fyrir það grettistak sem þeir hafa lyft í gerð vallarins, alveg frá fyrsta degi,“ stendur jafnframt í tilkynningu KA. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert