„Mér líst gríðarlega vel á að vera á heimavelli. Það er kannski helst það en auðvitað er þetta gríðarlega erfiður andstæðingur,“ sagði Davíð Smári Lamude, þjálfari Vestra, fyrir leik liðsins gegn Þór frá Akureyri í átta liða úrslitum bikarkeppni karla í knattspyrnu í dag.
Leikurinn fer fram á heimavelli Vestra á Ísafirði og hefst klukkan 17.30.
„Þór er alltaf Þór. Ég þekki hvernig það er að spila þarna og þekki þjálfarann. Ég veit að þetta verður ekki auðveldur leikur.
Hvort sem við þurfum að stýra leiknum eða liggja til baka erum við sterkir á báða vegu. Ég hef ekki áhyggjur af því.“ sagði Davíð Smári í samtali við mbl.is.
Vestri hefur farið frábærlega af stað á tímabilinu, er í þriðja sæti í Bestu deildinni og vann Íslandsmeistara Breiðabliks í 16-liða úrslitum bikarsins.
Hvernig haldið þið þessu góða gengi við?
„Þetta er svolítið snúin spurning! Það er alltaf bara næsti leikur, æfa vel og þetta sígilda. Við förum vel yfir andstæðinginn og það er bara einn leikur í einu. Við erum ekkert dvelja við það að láta okkur dreyma um eitt né neitt. Við hugsum bara um næsta leik og næstu frammistöðu,“ sagði hann.
Spurður hvort Vestri hugsi sér gott til glóðarinnar að komast í úrslitaleikinn í fyrsta sinn í ljósi þess að aðeins tvo sigra þarf til þess sagði Davíð Smári:
„Ég svo sem vitna í það sem ég sagði áðan, hjá okkur er það alltaf bara næsti leikur og næsta frammistaða og ná að toppa í næsta leik. Ég ætla ekki að velta því fyrir mér hvenær úrslitaleikurinn er spilaður hérna á Laugardalsvellinum ef ég á að vera alveg hreinskilinn.“
Viðurkenndi hann þó að sannarlega væru möguleikarnir fyrir hendi að komast í undanúrslit.
„Já, klárlega, og var það auðvitað líka fyrir Blikaleikinn þannig að hver leikur er nýtt tækifæri, sagði Davíð Smári að lokum.