Stjarnan í undanúrslit eftir sex marka leik

Emil Atlason skorar glæsilegt mark úr aukaspyrnu.
Emil Atlason skorar glæsilegt mark úr aukaspyrnu. mbl.is/Árni Sæberg

Stjarnan tryggði sér í kvöld sæti í átta liða úrslitum bikarkeppni karla í fótbolta með sigri á Keflavík úr 1. deild, 4:2, á heimavelli í kvöld. Stjarnan er annað liðið til að tryggja sér sæti í undanúrslitunum á eftir Vestra

Stjarnan byrjaði betur og fékk nokkur mjög góð færi á fyrstu tíu mínútunum en mistókst að skora. Keflavíkingar refsuðu því Eiður Orri Ragnarsson kom gestunum yfir á 15. mínútu er hann lagði boltann í netið af stuttu færi eftir góðan undirbúning hjá Kára Sigfússyni.

Keflvíkingar voru yfir í ellefu mínútur því Emil Atlason jafnaði á 26. mínútu með glæsilegu marki beint úr aukaspyrnu rétt utan teigs.

Gestirnir létu það ekki á sig fá því Ásgeir Páll Magnússon kom þeim aftur yfir á 31. mínútu með skalla af stuttu færi eftir að Stjörnumenn náðu ekki að koma boltanum í burtu eftir horn.

Aðeins þremur mínútum síðar jafnaði Jóhann Árni Gunnarsson með góðu skoti úr teignum eftir sendingu frá Emil.

Benedikt Warén kom Stjörnunni svo yfir í fyrsta skipti á 43. mínútu þegar hann lagði boltann örugglega í hornið eftir sendingu frá Örvari Loga Örvarssyni og var staðan í hálfleik 3:2.

Örvar Logi sá sjálfur um að gera fjórða mark Stjörnunnar með glæsilegu skoti utan teigs á 49. mínútu eftir að Keflavík náði ekki að koma boltanum í burtu eftir horn.

Leikurinn róaðist töluvert eftir það. Stjörnumenn settu lítinn kraft í að reyna að bæta við mörkum og Keflvíkingar virtust missa trúna. Urðu mörkin því ekki fleiri og Stjarnan er komin í undanúrslit. 

Stjarnan 4:2 Keflavík opna loka
90. mín. Það verða að minnsta kosti fimm mínútur í uppbótartíma.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert