Arnar Gunnlaugsson, þjálfari íslenska karlalandsliðsins í fótbolta, er nokkuð sáttur við frammistöðu liðsins undir sinni stjórn í fyrstu tveimur landsleikjagluggunum sem hann hefur stýrt liðinu í, en hann tók við þjálfun landsliðsins í janúar á þessu ári.
Liðið hefur leikið fjóra leiki undir stjórn Arnars og unnið einn þeirra, en fyrstu tveir leikir Arnars voru gegn Kósovó í mars í umspili Þjóðadeildarinnar um sæti í B-deild keppninnar. Íslenska liðið tapaði báðum leikjunum, 2:1 í Pristina og 3:1 í Murcia sem var jafnframt heimaleikur Íslands í einvíginu, en tapið þýddi að Ísland féll í C-deild Þjóðadeildarinnar.
Liðið lék svo tvo vináttulandsleiki gegn Skotlandi og Norður-Írlandi á dögunum og vann frækinn sigur gegn Skotlandi í Glasgow, 3:1, þann 6. júní en sigurinn var sá fyrsti hjá Íslandi gegn Skotlandi. Þann 10. júní tapaði Ísland svo fyrir Norður-Írum í Belfast, 1:0, en fram undan er undankeppni HM 2026 sem hefst í september en þar leikur Ísland í D-riðlinum ásamt Aserbaídsjan, Frakklandi og Úkraínu.
„Mér líður vel í starfinu og ég finn mig mjög vel í því líka,“ sagði Arnar í samtali við Morgunblaðið þegar hann ræddi fyrstu mánuðina sína í starfi.
En hvernig skynjar Arnar stemninguna í kringum íslenska karlalandsliðið í dag?
„Tilfinningin mín er sú að stemningin í kringum landsliðið sé góð í dag. Þetta eru frábærir strákar, fagmenn fram í fingurgóma og miklir atvinnumenn. Þá langar virkilega til þess að gera þjóðina stolta af sér og þeir eru tilbúnir að leggja mikið á sig til þess. Gagnrýni er hluti af leiknum og það er bæði gaman og sjálfsagt að fólk gagnrýni liðið, það heldur manni á tánum. Fótbolti er úrslitabransi en mér líður ekkert ósvipað og á mínum fyrstu árum hjá Víkingi.
Ég hef alltaf sagt það að knattspyrnuáhugamenn eru klárir og ég held að fólk átti sig alveg á því sem við erum að reyna að gera. Auðvitað eru einhverjir pirraðir yfir því að við séum ekki alveg komnir á þann stað sem við viljum vera á en þú verður að byrja að skríða áður en þú byrjar að hlaupa. Þetta tekur alltaf tíma en ég er mjög meðvitaður um það að þetta má ekki taka of langan tíma. Einfaldasta myndlíkingin er í raun sú að ég er að reyna að búa til 10 mínútna þátt úr fimm klukkustunda kvikmynd,“ bætti Arnar Gunnlaugsson við í samtali við Morgunblaðið.
Ítarlegt viðtal við Arnar Gunnlaugsson má sjá á íþróttasíðum Morgunblaðsins í dag.