„Veit ekki með það“

Davíð Smári Lamude, þjálfari Vestra.
Davíð Smári Lamude, þjálfari Vestra. mbl.is/Karítas

Vestri tók á móti Þór frá Ak­ur­eyri í átta liða úr­slit­um bik­ar­keppni karla í fót­bolta á Ísaf­irði í dag. Leikurinn endaði með 2:0 sigri Vestra. Davíð Smári Lamude þjálfari Vestra mætti í viðtal og var spurður út í fyrstu viðbrögð eftir leik.

„Ég er ánægður að vera kominn áfram. Bikarinn er svona læti í lokin, skemmtileg orka og bikarandi. Frábær fyrri hálfleikur hjá okkur og mjög svona fagmannlegt hjá okkur. Mér fannst við hrikalega góðir í fyrri hálfleik en í seinni alls ekki nægilega góðir, svona er þetta bara.

Við spilum á móti sterku Þórs-liði. Þetta er vel þjálfað lið sem hefur engu að tapa hérna í dag. Þeir lentu 2:0 undir og henda einhvern veginn öllu í andlitið á okkur. Við þurftum bara að hafa aðeins fyrir hlutunum, og mér finnst það gott fyrir framhaldið,“ sagði hann.

Er þá ekki hægt að segja að þetta hafi verið fagmannleg frammistaða?

„Jú, sérstaklega í fyrri hálfleik og vissulega heilt yfir fagmannlegt. Það er hins vegar erfitt að eiga við öll lið þegar þau hafa engu að tapa. Þau fyllast af orku og krafti og ég efast ekki um að Siggi hafi sagt vel valin orð inn í klefa í hálfleik,“ sagði Davíð Smári.

Þetta er annar leikurinn í röð sem Vestra liðið dettur niður í seinni hálfleik. Hefur þú áhyggjur af þessu?

„Veldur mér áhyggjum, veit ekki með það. Málið er að liðinu mínu líður ofboðslega vel að verjast og auðvitað er ekki planið að falla svona djúpt. Leikmenn eru alveg meðvitaðir um það en það er ekki eins og Þórsarnir óðu í færum hérna í dag. Þannig að mönnum leið bara þokkalega að vera svona djúpt í dag,“ sagði hann.

Nú er bara einn leikur í Laugardalsvöllinn, þú hlýtur að vera bjartsýnn á að komast þangað?

„Ég er bara að hugsa um FH á sunnudaginn, ég leyfi mér ekki að hugsa lengra en það,“ sagði Davíð Smári að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert