Alltaf erfitt að koma til Vestmannaeyja

Hólmar Örn Eyjólfsson fagnar sigurmarki sínu í kvöld.
Hólmar Örn Eyjólfsson fagnar sigurmarki sínu í kvöld. Ljósmynd/Sigfús Gunnar

Valsmenn heimsóttu ÍBV suður með sjó í í átta liða úrslitum bikarkeppni karla á Þórsvöll í Vestmannaeyjum í kvöld. Leikurinn endaði 1:0 fyrir Val.

Eina mark leiksins skoraði Hólmar Örn Eyjólfsson, fyrirliði Valsmanna. Hann var að vonum sáttur með að vera kominn í undanúrslit bikarsins.

„Þetta er það sem við komum hingað til að gera. Leikurinn svona varð einhvern veginn eins og við sáum fyrir okkur með rigninguna og aðstæðurnar. Þekkjandi ÍBV líka, þá er alltaf erfitt að koma hingað. Þeir voru handfylli í dag og létu finna fyrir sér. Ég er bara stoltur af mínu liði að hafa staðið vel á móti þeim og skilað hreinu laki og sigri í hús,“ sagði Hólmar Örn.

Leikurinn var í járnum fram að marki Valsmanna úr horni eftir rúmlega korters leik. Í kjölfarið læstu Valsmenn hálfpartinn leiknum fram að síðasta hálftímanum þar sem Eyjamenn fóru að þjarma verulega að Valsmönnum.

„Fyrsta markið í svona leikjum breytir leikmyndinni mikið og eins og þeir spila fótbolta þá voru þeir farnir að setja mikla pressu á okkur þegar þeir byrjuðu að negla honum fram þarna í seinni hálfleik. Eins og ég segi, það er gott að koma hingað eftir langt ferðalag og skila sigri í hús,“ sagði Hólmar Örn.

Stjarnan, Vestri og Fram eru eftir í keppninni með Valsmönnum. Það fer ekkert á milli mála að Valsmenn eru sigurstranglegastir af eftirstandandi liðum. Hólmar Örn hefur hinsvegar marga fjöruna sopið og segir Valsmenn þurfa að mæta jarðbundna í næstu umferð.

„Það eru ennþá góð lið eftir í þessari keppni og við þurfum að vera með hausinn rétt skrúfaðan á ef við ætlum að fara alla leið. Það er klárlega markmiðið,“ sagði varnarmaðurinn knái að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert