Umdeilt atvik átti sér stað þegar KR fékk vítaspyrnu í tapi liðsins gegn Víkingi úr Reykjavík, 3:2, í ellefu umferð Bestu deildar karla í knattspyrnu á Víkingsvelli síðasta mánudagskvöld.
Víkingur komst 1:0-yfir á 11. mínútu með marki Helga Guðjónssonar úr víti. Hins vegar fékk KR víti á 29. mínútu þegar Gabríel Hrannar Eyjólfsson átti skot sem Karl Friðleifur Gunnarsson varði með höndinni.
KR-ingar vildu rautt spjald á Karl Friðleif en Jóhann Ingi Jónsson dómari mat það sem svo að Ingvar Jónsson markvörður Víkinga hefði getað náð til boltans. Í endursýningu virðist það ekki vera raunin.
Jóhannes Kristinn Bjarnason jafnaði metin úr vítinu, 1:1.
Karl Friðleifur var síðan sjálfur á ferðinni á 43. mínútu þegar hann skoraði og kom Víkingi aftur yfir, 2:1. Aðeins tveimur mínútum síðar jafnaði Matthias Præst metin á nýjan leik fyrir KR-inga, 2:2.
Gunnar Vatnhamar skoraði síðan sigurmark Víkings á 49. mínútu.
Mörkin og fleiri svipmyndir úr leiknum má sjá á YouTube-síðu Bestu deildarinnar hér að neðan.