Fjölnir spyrnti sér af botni 1. deildar karla í knattspyrnu með því að vinna öruggan 4:1-sigur á Þrótti úr Reykjavík í 9. umferð á Þróttarvelli í Laugardal í kvöld.
Fjölnir er nú með sex stig í 11. sæti, jafnmörg og botnlið Selfoss en með betri markatölu. Þróttur heldur kyrru fyrir í fjórða sæti með 14 stig.
Hilmar Elís Hilmarsson kom Fjölni yfir eftir rúmlega hálftíma leik þegar hann skoraði af stuttu færi eftir hornspyrnu.
Stuttu síðar tvöfaldaði Bjarni Þór Hafstein forskot gestanna úr Grafarvogi þegar hann vippaði boltanum snyrtilega yfir Þórhall Ísak Guðmundsson í marki Þróttar.
Staðan í leikhléi var því 2:0.
Snemma í síðari hálfleik, á 53. mínútu, skoraði Rafnar Máni Þrastarson þriðja mark Fjölnis þegar hann stýrði boltanum í netið af stuttu færi eftir fyrirgjöf vinstra megin úr vítateignum.
Fjórða markið kom svo eftir tæplega klukkutíma leik. Þórhallur Ísak varði þá skot frá Kristófer Degi Arnarssyni fyrir utan vítateig en beint á Árna Steinn Sigursteinsson sem skilaði boltanum í markið við markteiginn.
Árni Steinn fékk svo sitt annað gula spjald og þar með rautt tólf mínútum fyrir leikslok. Sex mínútum síðar minnkaði varamaðurinn Jakob Gunnar Sigurðsson muninn fyrir Þrótt með skalla af stuttu færi en þar við sat.