„Mér fannst þetta mjög jafn leikur,“ sagði Simon Tibbling, sænski miðjumaðurinn hjá Fram, í samtali við mbl.is eftir að liðið tryggði sér sæti í undanúrslitum bikarkeppninnar í fótbolta með sigri á Aftureldingu á útivelli, 1:0.
„Við byrjuðum mjög vel og fengum færi en svo komust þeir betur inn í leikinn og skutu m.a. í slá. Í seinni hálfleik vorum við sterkari og fengum mjög góð færi.
Við stýrðum leiknum vel eftir markið þeirra og vorum líklegri til að komast tveimur mörkum yfir en þeir að jafna,“ sagði hann um leikinn.
Hann er spenntur fyrir undanúrslitum í bikar og sérstaklega í ljósi þess að bikarmeistararnir fá sæti í Sambandsdeild Evrópu.
„Þetta er mjög spennandi. Lið eru farin að leggja mjög mikið í bikarkeppnina til að komast í Evrópukeppni. Þetta er stysta leiðin í Evrópu og þetta er gott tækifæri fyrir öll íslensku liðin. Það eru bara fjögur lið eftir og við ætlum að keyra á þetta,“ sagði hann.
Tibbling kom til Fram fyrir tímabilið en hann er með afar góðan feril. Lék hann t.a.m. tæplega 100 leiki fyrir danska stórliðið Bröndby í dönsku úrvalsdeildinni og á einn landsleik fyrir A-landslið Svíþjóðar.
„Þetta hefur verið mjög gott og mikið ævintýri. Ég hef verið erlendis í langan tíma en það er alltaf gaman að koma í nýjar deildir. Fótboltinn hér er aðeins öðruvísi en ég er að læra mikið. Þetta er líka mjög fallegt land,“ sagði hann.
Rúnar Kristinsson er þjálfari Fram og sá sænski er hrifinn af því að spila fyrir Rúnar, sem var lengi leikjahæsti leikmaðurinn í sögu landsliðsins, þar til Birkir Bjarnason tók fram úr honum.
„Ég er of ungur til að hafa séð hann spila en ég þekkti nafnið og hann átti glæsilegan feril. Það er mjög gott að geta lært af honum,“ sagði Tibbling.