Valur tryggði sér í kvöld sæti í undanúrslitum bikarkeppni karla í knattspyrnu með því að leggja ÍBV að velli, 1:0, í átta liða úrslitum á Þórsvelli í Vestmannaeyjum.
Fyrri hálfleikurinn var frekar rólegur og ljóst að mikið var undir hjá báðum liðum. Eftir tíðindalítið fyrsta korter fengu Valsmenn hornspyrnu. Tryggvi Hrafn tók hornið og fann kollinn á Hólmari Erni inni í markteig, sem náði að beina boltanum á markið. Hjörvar Daði, markmaður Eyjamanna, var í boltanum en náði ekki að gera nóg og Valsmenn komnir í 1:0.
Eftir markið skiptust liðin á að vera með boltann en náðu ekki að bæta við mörkum. Vicente Valor komst næst því þegar hann hafði fullt vald á boltanum inni í teig Valsmanna, en Frederik Schram, markvörður Vals, gerði vel í þröngu færi. 1:0 fyrir gestunum í hálfleik.
Síðari hálfleikur var tíðindalítill framan af og liðin skiptust helst á að halda boltanum. Vaxandi pirringur var hjá heimamönnum í síðari hálfleik, en þeim fannst halla heldur á sig í áminningum dómarans í dag.
Þegar rétt rúmur hálftími lifði leiks fóru heimamenn að sækja verulega að gestunum sem féllu aftar og freistuðu þess að sigla sigrinum heim.
Á 65. mínútu fékk Sverrir Páll Hjaltested, sóknarmaður ÍBV, dauðafæri og skaut að marki Valsmanna. Markskotið stöðvaði varnarmaður Vals með hendinni, en dómarinn sá ekki ástæðu til að dæma vítaspyrnu, heimamönnum til mikils ama.
Þegar um korter var eftir að leiknum vildu heimamenn í ÍBV fá aðra vítaspyrnu þegar varnarmaður Vals fékk boltann í handlegginn eftir fyrirgjöf Víðis Þorvarðarsonar, varamanns ÍBV. Dómarinn var ekki sammála því og áfram hélt leikurinn.
Valsmenn sóttu aðeins undir lokin en eftir nokkrar sóknir á báða bóga undir lok leiksins var ljóst að hvorugu liðinu myndi takast að skora annað mark leiksins fyrir lokaflautið. Leikurinn endaði, eins og áður sagði, 1:0 fyrir gestunum í Val.
Valsmenn fara áfram í undanúrslit Mjólkurbikarsins þar sem þeir mæta Vestra, Stjörnunni, Fram eða Aftureldingu. ÍBV er úr leik en leikmenn og þjálfarateymi Eyjamanna voru gífurlega ósáttir við störf dómarans í dag.