Vil frekar fá á mig þrjú mörk og vinna

Jökull Andrésson
Jökull Andrésson mbl.is/Ólafur Árdal

„Þetta er pirrandi því við eigum miklu meira inni,“ sagði Jökull Andrésson markvörður Aftureldingar í samtali við mbl.is eftir tap gegn Fram, 1:0, í átta liða úrslitum bikarkeppninnar í fótbolta í Mosfellsbæ í kvöld.

„Fram spilaði sinn leik mjög vel og eins þeir spila flesta fótboltaleiki. Við náðum að stoppa þá inn á milli en sóknarleikurinn var ekki nógu góður í dag.

Þetta var 50/50 en í svona bikarleikjum snýst þetta bara um hver nær markinu. Þeir skora og það er ótrúlega pirrandi,“ sagði hann um leikinn.

Jökull varði nokkrum sinnum glæsilega og kom í veg fyrir fleiri mörk.

„Maður hjálpar liðinu eins mikið og maður getur því þeir eru búnir að vera ótrúlega góðir fyrir mig á tímabilinu. Ég vil samt frekar fá á mig þrjú mörk og vinna 4:3.

Fram á hrós skilið. Á sama tíma þurfum við að horfa í spegilinn og sjá hvað við getum gert betur. Nú er það bara áfram í deildinni, ÍBV næst,“ sagði Jökull.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert