Sæunn Björnsdóttir leikmaður Þróttar ræddi við mbl.is eftir sigur liðsins á Fram, 3:1, í Bestu deildinni í fótbolta í kvöld.
Sæunn lenti í óskemmtilegu atviki í leiknum þegar Elaina LaMacchia markvörður Fram togaði hana niður með því að grípa í hárið á henni og toga af miklu afli.
„Ég stóð bara hjá markverðinum að reyna að vera fyrir en hún var ekki sátt með mig fyrir framan sig og ákvað svoleiðis að rífa mig niður á hárinu.
Mér finnst ótrúlegt að enginn af þessum fjórum dómurum hafi séð þetta en fólk var kannski að skemmta sér yfir þessu í útsendingunni.
Það er kjánalegt að enginn hafi tekið eftir þessu. Þetta er alls ekki í lagi. Það er kjánalegt að þetta sé í boði og hafði engar afleiðingar,“ sagði Sæunn um atvikið við mbl.is.
Þess má geta að á dögunum fékk leikmaður ÍA tveggja leikja bann fyrir að rífa í hárið á leikmanni HK í leik liðanna í 1. deild kvenna.