„Seigla, vilji, dugnaður og nýting fyrir framan markið,“ sagði Halldór Jón Sigurðsson þjálfari Tindastóls í samtali við mbl.is eftir 4:1 sigur á FHL í tíundu umferð Bestu deildar kvenna í fótbolta í kvöld.
„Við erum að standa okkur vel gegn hornspyrnum og góðum stöðum. Þær fengu ekki mikið af opnum færum en voru að koma sér í góðar stöður en við gerðum oftast vel í þeim. Við náðum að verjast vel og betur en gegn FH í seinasta leik,“ sagði Halldór Jón um þær stöður sem FHL skapaði sér í leiknum.
Tindastóll hefur verið að skora mest gegn neðri liðum deildarinnar og hafa fengið öll stig sín gegn þeim.
„Þetta snýst allt um að undirbúa hverja orrustu fyrir sig. Við vorum tilbúnar í þetta í dag og gerðum allt vel. Við höfum líka verið að standa okkur vel gegn liðunum í efri hlutanum á köflum en stundum eru þær líka betri en við í því að klára leiki. Núna er það bara að gera sig klára í næsta leik sem er nú eftir ansi langan tíma,“ sagði þjálfarinn um tímabil Tindastóls til þessa.
„Seigla, vilji, dugnaður og nýting fyrir framan markið er heppilegast að segja. Svo þessar vörslur sem innsigluðu sigurinn,“ sagði Halldór að lokum um hvað hafi skapað sigurinn.