Sandra María Jessen fyrirliði Þórs/KA sagði eftir sigurinn á Víkingi í dag, 4:1, að það væri afar mikilvægt að fara með hann inn í hléið sem nú tekur við vegna Evrópumótsins í Sviss.
Sigur Akureyrarliðsins var sannfærandi en leikurinn var í 10. umferð Bestu deildar kvenna í fótbolta. Eftir hann situr Þór/KA í fjórða sæti deildarinnar en fyrir þennan leik höfðu Akureyrarkonur tapað þremur leikjum í röð í öllum keppnum þannig að um var að ræða kærkominn sigur fyrir þær. Sandra María ræddi við mbl.is eftir leikinn.
„Þrátt fyrir að hafa átt erfiða leiki varðandi úrslit þá er mjög margt jákvætt sem við höfum verið að gera og mér fannst við bara taka það inn í leikinn núna og gera það sem við erum góðar í.
Og síðan bara nýta færin okkar, við fengum reyndar fleiri en náðum að koma fjórum inn, við höfum ekki verið að skora mikið upp á síðkastið þannig að það er ofboðslega gott fyrir hausinn að fara með þennan leik inn í pásuna.
Mér fannst við bara vilja þetta meira en þær, það hefur verið svolítið erfitt gengi hjá þeim í sumar og við vissum það og það var eitthvað sem við ætluðum að nýta okkur með því að vera þessi pirrandi, vera alltaf á undan í boltann, og vera bara frekari.
Og ég held að þegar uppi er staðið var það bara liðið sem vildi þetta meira sem vann leikinn í dag,“ sagði Sandra um frábæra frammistöðu og baráttu Þórs/KA í þessum leik.
Íslenska landsliðið er núna á leiðinni á Evrópumót kvenna í Sviss. Sandra María er í hópnum þar og sagði um komandi verkefni:
„Það er bara allt mögulegt, þetta er náttúrulega bara nýtt mót og það eru spennandi leikir framundan. Við lentum í skemmtilegum riðli og þekkjum vel til liðanna sem við erum að fara að mæta þannig við þurfum bara að nýta það sem við erum búnar að leikgreina úr hinum leikjunum til þess að mæta enn þá betur tilbúnar í þann leik.
Fyrsta markmiðið okkar er klárlega að fara upp úr riðlinum og svo sjáum við bara hvað kemur eftir það“.