Þór/KA og Víkingur Reykjavík áttust við í dag í fjörugum leik í 10. umferð Bestu deildar kvenna í Boganum á Akureyri. Leikurinn endaði með sannfærandi sigri Þórs/KA, 4:1.
Eftir leikinn er staða liðanna í deildinni óbreytt. Þór/KA er enn í fjórða sæti en Víkingur er í níunda sæti og þar með fallsæti.
Þór/KA hafði tapað þremur leikjum í röð í öllum keppnum fyrir leikinn í dag og Víkingur var í fallsæti þannig að leikurinn var mikilvægur fyrir bæði lið.
Leikurinn byrjaði mjög hressilega. Bæði lið ógnuðu og eftir sex mínútna leik náði Sandra María Jessen að setja boltann í netið en hún var dæmd rangstæð og markið stóð ekki. Þór/KA fór þá að ógna meira og á 28. mínútu fékk liðið hornspyrnu.
Karen María Sigurgeirsdóttir tók spyrnuna inn á teiginn og eftir smá klafs þá datt boltinn niður í miðjum teignum fyrir Agnesi Birtu Stefánsdóttur sem smellti honum í þaknetið í sínum 100. leik fyrir Þór/KA. Fyrsta mark leiksins komið og von var á fleirum.
Eftir markið var Þór/KA líklegra til að bæta við marki og vildu leikmenn Þórs/KA fá vítaspyrnu þegar Karen María Sigurgeirsdóttir fór niður í vítateig Víkings en ekkert var dæmt.
Á 42. mínútu barst boltinn á Lindu Líf Boama sem var alein á miðjum vítateig Þórs/KA. Linda átti frábæra sendingu á Dagnýju Rún Pétursdóttur sem setti boltann framhjá Jessicu Berlin í marki Þórs/KA og jafnaði þar með leikinn. Stuttu síðar var flautað til hálfleiks og allt jafnt, 1:1.
Seinni hálfleikur byrjaði af miklum krafti. Eftir mínútu leik keyrði Hulda Ósk upp hægri kantinn og átti frábæra fyrirgjöf á Söndru Maríu sem átti skot í slá. Þaðan barst boltinn aftur út í teiginn beint á Amalíu Árnadóttur sem renndi honum í netið og kom Þór/KA aftur yfir.
Þór/KA hafði yfirhöndina allan seinni hálfleikinn og á 62. mínútu bætti Sonja Björg Sigurðardóttir þriðja markinu við eftir að hafa fylgt eftir skoti frá Söndru Maríu Jessen.
Kimberley Dóra Hjálmarsdóttir átti fyrirgjöf frá hægri kantinu á 67. mínútu sem fann Söndru Maríu. Sandra átti fast skot framhjá Sigurborgu Kötlu Sveinbjörnsdóttur í marki Víkings og skoraði fjórða mark Þórs/KA í dag.
Mörkin urðu ekki fleiri og sannfærandi sigur Þórs/KA staðreynd.