Ein farin og meiri breytingar fyrir austan

Rósey Björgvinsdóttir fyrirliði FHL og samherjar hennar hafa átt erfitt …
Rósey Björgvinsdóttir fyrirliði FHL og samherjar hennar hafa átt erfitt uppdráttar í ár. mbl.is/Ólafur Árdal

Útlit er fyrir að nokkrar breytingar verði á liði FHL fyrir seinni hluta Bestu deildar kvenna í fótbolta en nýliðarnir af Austfjörðum hafa tapað öllum tíu leikjum sínum á tímabilinu.

Samkvæmt heimildum mbl.is hefur bandaríski leikmaðurinn Anna Hurley þegar verið send heim en hún hefur ekki átt fast sæti í liðinu að undanförnu og aðeins einu sinni verið í byrjunarliði FHL í síðustu sjö umferðunum.

Björgvin Karl Gunnarsson sagði við mbl.is eftir tapið gegn Tindastóli í 10. umferðinni á föstudagskvöldið að liðið þyrfti styrk í allar stöður, á vörn, miðju og í sókn, og því er ljóst að ný andlit eru væntanleg á næstu dögum og vikum en félagaskiptaglugginn verður opnaður 17. júlí og deildin fer ekki aftur af stað eftir EM-hléið fyrr en 24. júlí.

Þá varð FHL fyrir miklu áfalli í vor þegar Serbinn Aida Kardovic sleit krossband í hné en hún hafði verið einn öflugasti leikmaður liðsins í fyrstu fimm umferðunum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert