Geggjað að spila í þessu liði

Benedikt með boltann í kvöld.
Benedikt með boltann í kvöld. Ljósmynd/Jón G. Hannesson

„Þetta var frábær sigur,“ sagði Benedikt V. Warén leikmaður Stjörnunnar í samtali við mbl.is eftir sigur á ÍA, 3:0, á útivelli í Bestu deildinni í fótbolta í kvöld.

„Þetta var góð liðsframmistaða og mér fannst við sterkari í öllu á vellinum. Við vorum sterkari í baráttu og vorum mjög flottir,“ sagði Benedikt og hélt áfram:

„Við komum sterkir í seinni hálfleik. Við vorum 1:0 yfir í hálfleik og vildum koma sterkir í seinni hálfleikinn. Við vildum koma góðir út og klára þetta og það gekk vel.“

Benedikt skoraði fyrsta mark Stjörnunnar er hann slapp í gegn eftir langa sendingu inn fyrir vörn ÍA frá Samúel Kára Friðjónssyni.

„Það var frábær sending. Hann var búinn að senda nokkrar yfir. Hann er með geggjaða spyrnutækni og það er gott að hafa svona leikmenn með sér í liði.

Það er geggjað að spila í þessu liði. Ég er með frábæra leikmenn í kringum mig. Við erum líka að sinna grunnvinnunni og að gera þetta saman. Það er að virka vel,“ sagði Benedikt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert