Dómarinn bað mig afsökunar í hálfleik

Valsmenn fagna marki í kvöld.
Valsmenn fagna marki í kvöld. mbl.is/Karítas

„Þetta var mjög góður og vel uppsettur leikur hjá okkur,“ sagði Sigurður Egill Lárusson leikmaður Vals í samtali við mbl.is eftir 6:1-stórsigur liðsins á KR í Bestu deildinni í fótbolta í kvöld.

„Við vissum að það kæmu kaflar, þar sem við myndum liggja. Svo erum við með öfluga menn fram á við og við nýttum tækifærin í dag. Þeir voru galopnir til baka og við nýttum það vel,“ sagði hann um leikinn.

Mark KR kom úr víti eftir að Sigurður var dæmdur brotlegur innan teigs en dómurinn var kolrangur.

„Ég var brjálaður, þar sem ég snerti ekki manninn. Dómarinn bað mig afsökunar í hálfleik. Mér er alveg sama núna.“

Sigurður hefur mikið verið á bekknum á tímabilinu en fékk tækifærið í kvöld þar sem Bjarni Mark Duffield tók út leikbann.

„Þetta er búið að vera mjög skrítið tímabil fyrir mig, ég er ekki vanur þessu. Ég er Valsari og liðsmaður og ég vildi nýta tækifærið þegar það kæmi og ég vona að ég hafi nýtt hann vel í kvöld,“ sagði hann.

Sigurður lék sinn 248. leik í efstu deild fyrir Val í kvöld og jafnaði Hauk Pál Sigurðsson yfir leikjahæstu leikmenn liðsins í deildinni.

„Ég er gríðarlega stoltur. Ég er búinn að vera hérna í 13 ár og búinn að taka fram úr alvöru mönnum. Ég er virkilega stoltur,“ sagði Sigurður.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert