„Hann hittir ekki boltann og hendir sér niður“

Rúnar Kristinsson.
Rúnar Kristinsson. mbl.is/Eyþór Árnason

„Þetta var gott stig en þau áttu að vera þrjú,“ sagði Rúnar Kristinsson, þjálfari Fram, í samtali við mbl.is eftir 1:1-jafntefli liðsins gegn Breiðabliki í 12. umferð Bestu deildar karla í fótbolta á Kópavogsvelli í kvöld.

Vuk Oskar Dimitrijevic kom Frömurum yfir á 49. mínútu en Höskuldur Gunnlaugsson jafnaði metin fyrir Íslandsmeistarana með marki úr vítaspyrnu í uppbótartíma.

„Ég er gríðarlega ánægður með frammistöðuna. Við vorum frábærir í fyrri hálfleik, við vörðumst vel og sköpuðum okkur tvö góð marktækifæri þar sem við áttum að skora. Við mætum ákveðnir til leiks í síðari hálfleikinn, komumst yfir og fáum svo tvöfalt dauðafæri til þess að tvöfalda forystuna og það var grátlegt að sjá ekki boltann í netinu.

Við vissum að Blikarnir myndu senda fleiri leikmenn fram völlinn og pressa okkur, sem þeir og gerðu, og við fengum þá tækifæri til þess að sækja hratt á þá en við nýttum þau tækifæri ekki nægilega vel. Svo fá þeir vítaspyrnu sem var alls ekki vítaspyrna en dómarinn dæmir og það er ekkert sem við getum gert í því,“ sagði Rúnar.

Aldrei vítaspyrna

Var Rúnar alveg sannfærður um það að þetta væri ekki vítaspyrna?

„Ég er búinn að sjá myndband af þessu öllu saman. Ismael snertir aldrei leikmanninn. Leikmaðurinn er ekki í jafnvægi þegar hann fær boltann og reynir að skjóta. Hann hittir ekki boltann og hendir sér niður. Það er augljóst, af öllum myndum að dæma, að þetta var aldrei vítaspyrna.“

Framarar höfðu unnið tvo leiki í röð fyrir leik kvöldsins, gegn FH og Aftureldingu, en liðið er í dag í sjöunda sæti deildarinnar með 16 stig, stigi frá efri hluta deildarinnar.

„Við erum búnir að gera vel í síðustu tveimur leikjum þar sem við höfum haldið markinu okkar hreinu og spilað sterkan varnarleik. Við erum hættulegir fram á við og skorum mörk. Við gerðum það í dag og frammistaðan í dag er eitthvað sem við þurfum að byggja ofan á í framtíðinni.

Við eigum samt ennþá langt í land og við erum á þeim stað sem við erum í deildinni. Þetta var gott stig en deildin er það jöfn að við þurfum að halda áfram að sýna svona frammistöður ef við ætlum okkur að vera í efri hlutanum. Ef ekki þá verðum við í neðri hlutanum,“ bætti Rúnar við í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert