„Það er alltaf svekkjandi að tapa stigum á heimavelli,“ sagði Halldór Árnason, þjálfari Íslandsmeistara Breiðabliks, í samtali við mbl.is eftir 1:1-jafntefli liðsins gegn Fram í 12. umferð Bestu deildar karla í fótbolta á Kópavogsvelli í kvöld.
Vuk Oskar Dimitrijevic kom Frömurum yfir á 49. mínútu en Höskuldur Gunnlaugsson jafnaði metin fyrir Íslandsmeistarana með marki úr vítaspyrnu í uppbótartíma.
„Ég skil að þeir sem sitja í stúkunni horfa á leikinn og horfa á færafjöldann okkar í fyrri hálfleik og dæma svo leikinn út frá því. Fram er lið sem sendir örfáar sendingar á milli sín, á fáar sóknir í leik og treystir á skyndisókn. Þeir spila með fimm manna varnarlínu sem þeir vilja alls ekki stíga út úr.
Við náðum að draga bæði miðverðina þeirra og vængbakverðina út úr stöðum og svæðum sem þeir vilja vanalega alls ekki opna. Það vantaði hins vegar upp á það að hjá okkur að fylla teiginn betur og síðasta sendingin og fyrirgjafirnar okkar voru ekki nægilega góðar. Þetta var miklu opnari leikur en Framarar vilja spila og mestu vonbrigðin eru þau að hafa ekki nýtt þær stöður sem við sköpuðum okkur betur,“ sagði Halldór.
Eins og áður sagði jöfnuðu Blikar metin með marki úr vítaspyrnu á lokamínútum leiksins.
„Ég er ekki búinn að sjá þetta nægilega vel. Miðað við það hvað menn komust upp með í þessum leik þá hefði þurft eitthvað mikið til, til þess að eitthvað yrði dæmt, þannig að ég treysti því að Arnar [dómari leiksins] hafi haft rétt fyrir sér þar. Arnari gekk eflaust gott eitt til að ætla að leyfa leiknum að fljóta en það var alveg ljóst strax frá fyrstu mínútu hvernig Framarar mættu til leiks.
Mér fannst við svara því vel og við þoldum það ágætlega, við tókum höggin á okkur. Það er samt þannig, þegar línan er lögð svona, þá endar það með ósköpum. Það kom mér á óvart að hann skildi dæma víti því menn voru barðir í andlitið fyrir framan hann, hann lét það viðgangast, en ég þarf að sjá þennan vítaspyrnudóm aftur.“
Þjálfarinn gerði sína fyrstu breytingu í leiknum á 77. mínútu þegar Viktor Karl Einarsson fór af velli fyrir Kristinn Steindórsson.
„Mér fannst markið liggja í loftinu hjá okkur alveg frá því að þeir komast yfir. Það er líka oft þannig að breytingar taka ákveðinn takt úr því sem við erum að reyna að gera, inn á vellinum. Það er líka þannig að það vantar helvíti marga leikmenn í Breiðabliksliðið þessa dagana og það er bara eins og það er.“
Reiknar Halldór með því að styrkja hópinn þegar félagaskiptaglugginn verður opnaður í júlí?
„Ég veit ekkert hvenær bæði Aron Bjarnason og Kristófer Ingi Kristinsson verða klárir í slaginn. Við erum að skoða það að styrkja okkur já enda hópurinn mun þynnri en við gerðum ráð fyrir þegar við fórum inn í sumarið. Við munum að sjálfsögðu skoða markaðinn og hvað er í boði en við munum ekki taka inn menn, bara til þess að taka þá, en við erum með augun opin,“ bætti Halldór við í samtali við mbl.is.