Sorglegt að missa þetta niður

Mattias Edeland miðvörður ÍBV skallar boltann en Gunnar Bergmann Sigmarsson …
Mattias Edeland miðvörður ÍBV skallar boltann en Gunnar Bergmann Sigmarsson og Hrannar Snær Magnússon úr Aftureldingu fylgjast með. Ljósmynd/Sigfús Gunnar

Eyjamenn tóku á móti Aftureldingu í Bestu deild karla á Þórsvelli í Vestmannaeyjum í dag. Þrátt fyrir góða byrjun ÍBV í leiknum tókst gestunum að fara með 2:1 útisigur af hólmi í Eyjum í kvöld.

Felix Örn Friðriksson, bakvörður og lykilmaður í liði Eyjamanna, var að vonum svekktur með niðurstöðuna eftir góðan fyrri hálfleik.

„Þetta var mjög svekkjandi útaf leiknum heilt yfir. Mér fannst við vera betri aðilinn í þessum leik. Mjög sorglegt að missa þetta niður úr 1:0 sigri úr mjög góðum fyrri hálfleik og byrja ekki seinni hálfleik. Það er það sem er grátlegast í þessu,“ sagði Felix Örn.

Sigur gestanna verður þess valdandi að Afturelding fer upp um miðja deild og slítur sig þrem stigum frá ÍBV, sem situr eftir nálægt botninum.

„Okkur finnst við vera með alla burði til að vera í þessum efri hluta og við sýndum það í dag að við erum með spilamennsku upp á 10 og eigum bara að klára þennan leik. Við eigum ekki að leyfa okkur að byrja seinni hálfleikinn svona illa og missa þetta niður,“ sagði Felix Örn.

Eins og áður sagði byrjuðu Eyjamenn leikinn vel og leiddu í hálfleik. Gestirnir frá Mosfellsbæ komu hinsvegar tvíefldir út í seinni hálfleikinn og settu tvö mörk á tveim mínútum þegar rétt tæplega klukkutími var liðinn af leiknum. Leikmenn ÍBV náðu að endingu ekki að svara mörkum Aftureldingar og gengu svekktir af velli eftir lokaflautið.

„Seinni hálfleikurinn situr í manni. En við spiluðum vel á köflum og vorum að skapa okkur færi. Við nýtum ekki þessi færi og þegar þú ert 1:0 yfir í svona langan tíma þá er hættulegt að fá mark í bakið. Við hefðum þurft annað mark til að gera útaf við þennan leik. Þá hefðum við skilið þá eftir og væntanlega verið komnir í topp sex,“ sagði Felix Örn að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert