Höskuldur Gunnlaugsson bjargaði stigi fyrir Íslandsmeistara Breiðabliks þegar liðið tók á móti Fram í 12. umferð Bestu deildar karla í fótbolta á Kópavogsvelli í kvöld.
Leiknum lauk með jafntefli 1:1, en Höskuldur jafnaði metin fyrir Blika með marki úr vítaspyrnu á 90. mínútu.
Blikar eru í öðru sæti deildarinnar með 23 stig, þremur stigum minna en topplið Víkings úr Reykjavík en Framarar eru í sjöunda sætinu með 16 stig, einu stigi frá efri hluta deildarinnar.
Fyrri hálfleikurinn var mjög lokaður og báðum liðum gekk illa að skapa sér afgerand marktækifæri.
Freyr Sigurðsson fékk besta færi fyrri hálfleiks þegar Framarar unnu boltann ofarlega á vellinum og voru þrír á tvo í skyndisókn. Boltinn barst til Freys sem átti fast skot af d-boganum en boltinn fór rétt yfir markið.
Arnór Gauti Jónsson átti frían skalla eftir hornspyrnu á 39. mínútu en hann náði ekki að stýra boltanum á markið, skallinn fór hátt yfir, og staðan því markalaus í hálfleik.
Síðari hálfleikurinn byrjaði vægast sagt með látum því strax á 49. mínútu unnu Framarar boltann á vallarhelmingi Blika. Boltinn barst á Frey sem gerði virkilega vel í að halda varnarmönnum Blika frá sér.
Hann keyrði í átt að vítateignum og átti svo sendingu út til hægri á Kennie Chopart sem átti hárnákvæma fyrirgjöf með jörðinni, beint fyrir vætur Vuk Oskar Dimitrijevic sem stýrði boltanum í netið af stuttu færi og staðan orðin 1:0.
Tveimur mínútum síðar slapp Freyr einn í gegn eftir frábæra sendingu frá Haraldi Einari Ásgrímssyni en Freyr setti boltann í þverslánna. Boltinn datt fyrir fætur Róberts Haukssonar sem tókst ekki að stýra boltanum í netið og setti hann hátt yfir fyrir opnu marki.
Valgeir Valgeirsson var nálægt því að jafna fyrir Breiðablik á 61. mínútu þegar boltinn datt fyrir hann í vítateig Framara en hann þrumaði boltanum í þverslánna.
Það virtist allt stefna í jafntefli á 88. mínútu en þá átti Höskuldur Gunnlaugsson skalla í stöng af mjög stuttu færi. Boltinn datt út í teiginn fyrir fætur Ágústs Orra Þorsteinssonar sem gerðir sig líklegan til þess að munda skotfótinn. Israel Garcia fór aftan í hann og Arnar Þór Stefánsson dómari benti á punktinn. Höskuldur steig sjálfur á punktinn, skoraði af miklu öryggi og tryggði Blikum jafntefli.