Valur valtaði yfir erkifjendur sína í KR, 6:1, í 12. umferð Bestu deildar karla í fótbolta á heimavelli sínum á Hlíðarenda í kvöld.
Valur fór með sigrinum upp fyrir Vestra og Stjörnuna og upp í þriðja sæti, þar sem liðið er með 21 stig, fimm stigum á eftir toppliði Víkings. KR er áfram í 10. sæti með 13 stig og aðeins einu stigi fyrir ofan fallsæti.
Fyrri hálfleikinn var mjög fjörlegur og Kristinn Freyr Sigurðsson kom Val yfir á 6. mínútu með skoti af stuttu færi eftir að KR-ingar komu boltanum ekki í burtu eftir horn.
KR-ingar voru mun betri næstu mínútur og jöfnuðu verðskuldað á 27. mínútu er Jóhannes Kristinn Bjarnason skoraði úr víti. Vítaspyrnudómurinn var þó kolrangur hjá Sigurði Hirti Þrastarsyni.
Valsmenn eyddu ekki miklum tíma í að svekkja sig, því mínútu síðar kom Tómas Bent Magnússon Valsmönnum aftur yfir með hnitmiðuðu skoti rétt utan teigs, eftir undirbúning hjá hinum markaskoraranum Kristni Frey.
Heimamenn voru ekki hættir í fyrri hálfleik, því Orri Sigurður Ómarsson gerði þriðja mark Vals á 44. mínútu er hann setti boltann fast upp í þaknetið eftir aðra hornspyrnu frá Tryggva Hrafni Haraldssyni. Reyndist það síðasta mark fyrri hálfleiks og staðan í leikhléi 3:1.
KR-ingar voru líklegri framan af í seinni hálfleik og Aron Sigurðarson fékk tvö góð færi. Fyrst skaut hann rétt framhjá úr teignum á 57. mínútu og skallaði svo yfir úr dauðafæri á 60. mínútu er hann var galopinn og einn á fjær.
Atli Sigurjónsson komst einnig nálægt því að skora tveimur mínútum síðar með föstu skoti utan teigs eftir langan sprett en Frederik Schram í marki Vals varði stórkostlega.
Það voru svo Valsmenn sem gerðu fimmta mark leiksins á 70. mínútu. Patrick Pedersen slapp þá inn fyrir vörn KR-inga, var óeigingjarn og sendi á Tryggva sem var í enn betra færi og Skagamaðurinn skoraði af öryggi.
Valsmenn voru ekki saddir því Patrick Pedersen gerði fimmta markið á 75. mínútu er hann potaði boltanum í markið af stuttu færi eftir sendingu frá Tryggva, sem launaði honum greiðan frá því fimm mínútum á undan.
Pedersen hefur nú skorað 128 mörk í efstu deild og þarf aðeins þrjú í viðbót til að jafna markamet Tryggva Guðmundssonar yfir flest mörk í sögu efstu deildar.
Alls voru sex mínútur í uppbótartíma og þær nýttu Valsmenn sér vel því Lúkas Logi Heimisson skoraði á lokasekúndunni og gulltryggði stórsigur.