12. umferð: Heimir sló met læriföðurins og stór áfangi Ingvars

Heimir Guðjónsson er orðinn leikjahæsti þjálfarinn í sögu efstu deildar …
Heimir Guðjónsson er orðinn leikjahæsti þjálfarinn í sögu efstu deildar karla. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

Heimir Guðjónsson þjálfari FH sló met í 12. umferð Bestu deildar karla í fótbolta, sem lærimeistari hans átti, og markvörður Víkings náði stórum áfanga á ferlinum.

Heimir er eftir sigur FH á Vestra, 2:0 á sunnudaginn, orðinn leikjahæsti þjálfarinn í sögu efstu deildar karla. Þetta var hans 339. leikur sem þjálfari í deildinni og Heimir fór fram úr engum öðrum en Ólafi Jóhannessyni.

Ólafur átti metið, 338 leiki, en undir hans stjórn hóf Heimir einmitt ferilinn sem aðstoðarþjálfari og tók síðan við af honum sem þjálfari FH í ársbyrjun 2008.

Heimir þjálfaði FH í tíu tímabil í röð, síðan Val í þrjú ár og er nú á þriðja tímabili eftir endurkomuna í FH. Þetta er því sextánda tímabil Heimis sem aðalþjálfari í deildinni en inn á milli stýrði hann HB í Færeyjum í tvö ár.

Ingvar Jónsson ver skot Hans Viktors Guðmundssonar í 350. deildaleiknum …
Ingvar Jónsson ver skot Hans Viktors Guðmundssonar í 350. deildaleiknum á ferlinum. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

Ingvar Jónsson markvörður Víkings lék sinn 350. deildaleik á ferlinum á sunnudagskvöldið þegar Víkingar unnu KA 2:0 á Akureyri.

Ingvar hefur leikið 178 leiki í efstu deild hér á landi, 99 með Víkingi og 79 með Stjörnunni, og auk þess 32 leiki í úrvalsdeildinni í Noregi, með Sandefjord og Start.

Þá á hann að baki 75 leiki í B-deildum Noregs og Danmerkur og hóf ferilinn með 65 leikjum með Njarðvík í 1. og 2. deild.

Sigurður Egill Lárusson í leiknum á Hlíðarenda í gærkvöld þar …
Sigurður Egill Lárusson í leiknum á Hlíðarenda í gærkvöld þar sem metið var jafnað. mbl.is/Karítas Sveina Guðjónsdóttir

Sigurður jafnaði leikjamet Hauks

Sigurður Egill Lárusson jafnaði í gærkvöld leikjamet Vals í efstu deild karla þegar hann lék með Hlíðarendaliðinu gegn KR. Þetta var hans 248. leikur fyrir félagið í deildinni og þar með jafnaði hann met Hauks Páls Sigurðssonar. Allt bendir því til þess að leikjametið falli endanlega innan tíðar.

FH-ingar fagna Sigurði Bjarti Hallssyni eftir glæsilegt mark hans í …
FH-ingar fagna Sigurði Bjarti Hallssyni eftir glæsilegt mark hans í 100. leiknum í deildinni. mbl.is/Hákon Pálsson

Sigurður Bjartur Hallsson framherji FH lék sinn 100. leik í efstu deild gegn Vestra og hélt upp á það með glæsilegu marki. Af þessum leikjum eru 39 fyrir FH, 45 fyrir KR og 16 fyrir uppeldisfélagið Grindavík.

Fjórir Húsvíkingar efstir hjá KA

Bakvörðurinn reyndi Hrannar Björn Steingrímsson er orðinn þriðji leikjahæstur í sögu KA í efstu deild. Hrannar lék sinn 146. leik fyrir félagið í deildinni gegn Víkingi og fór upp fyrir annan Húsvíking, Elfar Árna Aðalsteinsson.

Hrannar Björn Steingrímsson er orðinn þriðji leikjahæsti KA-maðurinn í efstu …
Hrannar Björn Steingrímsson er orðinn þriðji leikjahæsti KA-maðurinn í efstu deild. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

Í tveimur efstu sætunum hjá KA eru tveir aðrir Húsvíkingar því Hallgrímur Mar Steingrímsson, bróðir Hrannars, á leikjametið sem er 194 leikir og Ásgeir Sigurgeirsson er annar með 178 leiki.

Markahæstir eftir 12 umferðir:

12 Patrick Pedersen, Val
8 Tobias Thomsen, Breiðabliki
7 Eiður Gauti Sæbjörnsson, KR
7 Vuk Oskar Dimitrijevic, Fram
6 Aron Sigurðarson, KR
6 Jóhannes Kristinn Bjarnason, KR
6 Tryggvi Hrafn Haraldsson, Val
6 Viktor Jónsson, ÍA
5 Benjamin Stokke, Aftureldingu
5 Daði Berg Jónsson, Vestra
5 Örvar Eggertsson, Stjörnunni

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert