Fáum vonandi svona aðstöðu einn daginn

Ingibjörg Sigurðardóttir í leik með íslenska landsliðinu.
Ingibjörg Sigurðardóttir í leik með íslenska landsliðinu. Ljósmynd/Alex Nicodim

Ingibjörg Sigurðardóttir, varafyrirliði íslenska landsliðsins í knattspyrnu, er ánægð í hitanum í Stara Pazova í Serbíu þar sem liðið undirbýr sig nú fyrir EM 2025 í Sviss.

„Tilfinningin er góð. Ég tel það vera gott fyrir okkur að æfa í hitanum þannig að við erum ánægð,“ sagði Ingibjörg í samtali við mbl.is eftir æfingu í morgun.

Ísland á fyrir höndum vináttulandsleik gegn Serbíu á föstudag og heldur svo daginn eftir til Sviss. Fyrsti leikur liðsins í A-riðlinum á EM fer svo fram næstkomandi miðvikudag, 2. júlí.

Það er þrisvar sinnum heitara hér en á Íslandi, angrar það þig ekki?

„Það er vissulega eitthvað sem við þurfum að venjast. Ég held líka að það sé gott að æfa í aðeins meiri hita en verður í Sviss. Þegar við komum til Sviss verður heitt en við verðum í eina viku hér í enn meiri hita,“ sagði hún, en íslenski hópurinn hélt til Serbíu í gær.

„Ferðin var nokkuð löng en hún var í fínu lagi. Við flugum frá Íslandi til Óslóar og það gekk snurðulaust fyrir sig. Við komum hingað seint í gærkvöldi þannig að ég held að okkur muni líða töluvert betur á morgun,“ sagði Ingibjörg.

Eitthvað fyrir KSÍ að taka til athugunar

Íslenska liðið æfir við bestu mögulegu aðstæður í Serbíu og kvaðst hún ánægð með völlinn og æfingasvæðið.

„Mér líst mjög vel á það. Við höfum rætt það okkar á milli að aðstæðurnar séu mjög góðar hérna. Það er eitthvað sem sambandið okkar getur tekið til athugunar.

Úr því að Serbía er með þetta góða aðstöðu getum við vonandi einn daginn fengið jafn góða aðstöðu heima. Grasvellirnir eru mjög góðir og líkamsræktarstöðin líka. Við erum mjög ánægð.“

Er það kostur fyrir þig að hafa spilað nýlega með Bröndby á meðan aðrir leikmenn spiluðu síðast í byrjun maí?

„Ég held að það sé pottþétt kostur. Það eru auðvitað kostir og gallar en það er gott að vera á leið í stórt mót verandi í mjög góðu formi. Ég hef spilað einn til tvo leiki í hverri viku undanfarinn mánuð.

En svo finnur maður einnig fyrir þreytu. Það eru kostir og gallar en ég ætla að líta á björtu hliðarnar og vera full sjálfstrausts,“ sagði Ingibjörg.

Heimsókn til Belgrad ekki á dagskrá

Þar sem blaðamaður er búsettur í Belgrad lék honum forvitni á að vita hvort íslenska liðið muni hafa einhvern tíma til þess að skoða sig um í serbnesku höfuðborginni fyrir brottför á laugardag.

„Ég held að við munum ekki setja það í forgang. Aðaláherslan hjá okkur er að koma hópnum saman, koma okkur í búbblu fyrir Evrópumótið. Það snýst ekki bara um æfingar heldur einnig að koma okkur í rétt hugarástand í sameiningu, svo við séum með fulla einbeitingu á landsliðinu.

Ég tel það vera eitt af því jákvæða við að vera hér þar sem það er svo stutt í allt saman. Við getum í rauninni ekki gert margt annað þannig að við einbeitum okkur að endurheimt, undirbúningi og mörgum fundum,“ útskýrði hún.

Þannig að það verður pottþétt engin heimsókn til Belgrad?

„Nei ég held ekki. Við vorum hérna á síðasta ári og það var mjög indælt.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert