Höskuldur Gunnlaugsson fyrirliði Breiðabliks var í dag úrskurðaður í tveggja leikja bann í Bestu deild karla í knattspyrnu.
Höskuldur fékk rauða spjaldið í uppbótartíma gegn Fram í gærkvöld, eftir að hafa jafnað úr vítaspyrnu, 1:1, en þar átti hann fyrst í útistöðum við Viktor Freyr Sigurðsson markvörð Fram sem neitaði að láta boltann af hendi og síðan við Kyle McLagan, miðvörð Fram, sem líka fékk rauða spjaldið.
Kyle fékk eins leiks bann fyrir sinn þátt í stimpingunum en í úrskurði Aga- og úrskurðarnefndar segir að Höskuldur fái tveggja leikja bann fyrir ofsalega framkomu.
Höskuldur missir af leikjum Blika við Stjörnuna og Aftureldingu en Kyle verður ekki með Fram gegn ÍBV.
Eins leiks bann vegna gulra spjalda fengu Tobias Thomsen úr Breiðabliki, Böðvar Böðvarsson og Tómas Orri Róbertsson úr FH, Haraldur Einar Ásgrímsson úr Fram, Marko Vardic úr ÍA, Ívar Árnason úr KA og Kristinn Freyr Sigurðsson úr Val og þeir verða allir í banni í 13. umferðinni um næstu helgi.
Þá verður Örvar Logi Örvarsson úr Stjörnunni í banni gegn Val í undanúrslitum bikarkeppninnar vegna tveggja gulra spjalda í keppninni.
Margrét Árnadóttir úr Þór/KA er komin í eins leiks bann í Bestu deild kvenna.