Víkingar reka þjálfarann

John Henry Andrews er hættur störfum hjá Víkingi.
John Henry Andrews er hættur störfum hjá Víkingi. Ljósmynd/Kristinn Steinn

John Henry Andrews hefur verið sagt upp störfum sem þjálfara kvennaliðs Víkings í knattspyrnu, sem og Birni Sigurbjörnssyni aðstoðarþjálfara.

John hefur þjálfað Víkingsliðið síðan í nóvember 2019 og það hefur náð frábærum árangri undir hans stjórn. Það vann sér sæti í Bestu deildinni haustið 2023 með sigri í 1. deildinni og varð um leið mjög óvænt bikarmeistari með sigri á Breiðabliki í úrslitaleik.

Liðið hélt síðan áfram sinni siglingu á síðasta tímabili og hafnaði í þriðja sæti Bestu deildarinnar.

Í ár hefur hins vegar gengið illa og Víkingar sitja í níunda og næstneðsta sætinu að tíu umferðum loknum.

Björn kom inn í þjálfarateymið síðasta haust en hann var áður þjálfari kvennaliðs Selfyssinga og aðstoðarþjálfari Kristianstad í Svíþjóð.

Á heimasíðu Víkings kemur fram að undirbúningur að ráðningu nýs þjálfara sé hafinn og tilkynnt verði um framhaldið þegar það liggur fyrir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert