„Fæ mér kaffisopa með Serbunum“

Glódís Perla Viggósdóttir og Ingibjörg Sigurðardóttir.
Glódís Perla Viggósdóttir og Ingibjörg Sigurðardóttir. Ljósmynd/Alex Nicodim

Ingibjörg Sigurðardóttir, varafyrirliði íslenska landsliðsins í knattspyrnu, viðurkennir að spennan aukist í sífellu nú þegar aðeins ein vika er í að liðið hefji leik á EM 2025 í Sviss.

„Já, svo sannarlega. Þetta er svo spennandi. En ég tel okkur fyrst vera að koma okkur inn í það hugarástand núna í þessum búðum. Ég held að við munum átta okkur enn betur á því eftir leikinn gegn Serbíu,“ sagði Ingibjörg í samtali við mbl.is.

Hún hafði þá nýlokið æfingu í hitanum í Stara Pazova í Serbíu, sem er andstæðingur Íslands í vináttulandsleik á föstudaginn.

Markmiðið alltaf það sama

Ingibjörg er á leiðinni á sitt þriðja Evrópumót. Beðin um að bera þau saman sagði hún:

„Ég myndi segja að markmiðið hafi alltaf verið það sama í öllum þremur mótum; að komast upp úr riðlinum og fara í útsláttarkeppnina.

Svo bý ég auðvitað að persónulegri reynslu sem getur nýst mér vel og vonandi hjálpað yngri leikmönnunum. Við erum til dæmis með gjörbreytt lið frá mótinu árið 2017, ég held að við séum kannski þrír leikmenn sem vorum þá.

Þetta snýst því um að gefa yngri leikmönnunum góð ráð og vera til staðar fyrir þá, styðja við þá. Við erum með mjög spennandi lið núna þannig að ég tel möguleika okkar góða á því að komast upp úr riðlinum.“

Telurðu liðið sterkara nú en áður?

„Það er erfitt að segja því tegund þeirra leikmanna sem við höfum yfir að skipa er pottþétt að breytast. Því tel ég okkur eiga góða möguleika.

Nútímafótbolti er stöðugt að taka breytingum og við erum með tæknilega betri leikmenn og betri einstaklinga sem geta breytt leikjum. Það er mjög spennandi,“ sagði Ingibjörg.

Getur brugðið til beggja vona

Fyrsti andstæðingur Íslands á EM 2025 er Finnland eftir slétta viku. Liðin eru í A-riðli og fer leikurinn fram í Thun.

„Ég tel okkur vera með lið sem er mjög áþekkt Finnlandi. Þær eru með frábært lið sem hefur stöðugt verið að bæta sig. Þetta verður pottþétt erfiður leikur en ef við ætlum að komast áfram verðum við að vinna þann leik.

Við förum í báða hina leikina í riðlinum til þess að vinna þá. Við erum nógu góðar til þess að vinna öll liðin í riðlinum en þau eru líka nógu góð til þess að vinna okkur þegar við eigum slæman dag. Því þurfum við að vera góðar og spila vel,“ sagði hún um finnska liðið.

Serbía spilaði tvisvar við Finnland í B-deild Þjóðadeildarinnar. Þið fáið góð ráð frá Serbum um Finna.

„Já, ég mun líka ræða við vini mína í serbneska liðinu og fá góð ráð frá þeim. Ég þekki Dejönu Stefanovic og Miljönu Ivanovic. Ég fæ mér kaffisopa með þeim og ræði málin.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert