Hef sjaldan séð annað eins

Viktor Karl Einarsson í kvöld.
Viktor Karl Einarsson í kvöld. mbl.is/Karítas

Viktor Karl Einarsson var fyrirliði Breiðabliks í fjarveru Höskuldar Gunnlaugssonar er liðið sigraði Stjörnuna, 4:1, á útivelli í Bestu deildinni í fótbolta í kvöld. Þrátt fyrir að staðan hafi verið 1:0 fyrir Stjörnuna þar til á 70. mínútu leið Viktori vel í leiknum.

„Mér leið vel allan leikinn og mér fannst við ná góðum spilköflum og skapa hættulegar stöður sem við fórum illa með. Þeir fá eitt áhlaup, skora eitt gott mark en annars fannst mér við vera með leikinn eiginlega allan tímann.

Við vorum með þá þar sem við vildum. Á einhverju augnabliki í seinni hálfleik fannst mér þeir alveg sprungnir og við keyrðum á þá. Það er fáránlega gott að eiga svona menn á bekknum. Við hlupum yfir þá í seinni,“ sagði hann.

Kristófer Ingi Kristinsson kom inn á hjá Breiðabliki í stöðunni 1:0 fyrir Stjörnuna á 67. mínútu. Rúmum 20 mínútum síðar var hann búinn að skora sitt þriðja mark og snúa leiknum við.

„Við þurfum að ná þessu fyrsta marki til að fá alvörutrú sjálfir. Það er allt auðveldara þegar þú ert búinn að brjóta ísinn. Þessar skiptingar gerðu gæfumuninn.

Ég hef sjaldan séð annað eins. Ég man varla eftir því að hafa spilað leik þar sem einhver kemur inn og breytir öllu svona svakalega eins og Kristófer,“ sagði Viktor.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert