Innkoma Kristófers breytti öllu

Örvar Eggertsson með boltann í kvöld.
Örvar Eggertsson með boltann í kvöld. mbl.is/Karítas

Íslandsmeistarar Breiðabliks unnu sterkan útisigur á grönnum sínum í Stjörnunni, 4:1, í 13. umferð Bestu deildar karla í fótbolta í Garðabænum í kvöld. Breiðablik jafnaði topplið Víkings að stigum með 26 stig, en Víkingur á leik til góða. Stjarnan er áfram í fjórða sæti með 20 stig.

Varamaðurinn Kristófer Ingi Kristinsson skorað þrjú fyrstu mörk Breiðabliks á fimmtán mínútum.

Stjarnan komst yfir á 9. mínútu er Benedikt V. Warén skoraði glæsilegt mark. Hann fékk boltann frá Árna Snæ Ólafssyni í marki liðsins á eigin vallarhelmingi, brunaði inn í teiginn, fór illa með Viktor Karl Einarsson og skoraði með fallegu skoti upp í skeytin fjær.

Breiðablik var mikið með boltann á vallarhelmingi Stjörnunnar næstu mínútur og Viktor Karl fékk gott færi til að jafna á 22. mínútu er hann slapp í gegn en Árni gerði mjög vel í að verja.

Var það besta færi Breiðabliks í fyrri hálfleik, en gestunum gekk illa að skapa góð færi, þrátt fyrir að vera mikið með boltann.

Hinum megin ógnuðu Stjörnumenn lítið eftir markið og var staðan í leikhléi því 1:0, Stjörnunni í vil.

Óli Valur Ómarsson var nálægt því að jafna á 51. mínútu en Árni Snær varði vel frá honum í teignum. Nokkrum mínútum síðar átti Jóhann Árni Gunnarsson góða tilraun rétt utan teigs en boltinn fór í slána á marki Breiðabliks.

Að lokum voru það Blikar sem skoruðu næsta mark og það gerði Kristófer Ingi Kristinsson á 70. mínútu er hann fylgdi á eftir í kjölfar þess að Árni Snær varði frá Viktori Karli. Kristófer var ekki lengi að láta að sér kveða, því hann kom inn á sem varamaður þremur mínútum fyrr.

Sjö mínútum síðar var Kristófer búinn að skora aftur og þá gerði hann ansi fallegt mark. Varmaðurinn hann boltann frá Viktori Karli hægra megin og skilaði honum glæsilega í fjærhornið.

Kristófer var ekki hættur því hann fullkomnaði þrennuna á 85. mínútu er hann skoraði fallegt mark með skoti í slá og inn úr svipuðu færi og annað markið kom úr. 

Annar varamaður, Aron Bjarnason, gerði svo fjórða mark Stjörnunnar í uppbótartíma er hann slapp í gegn og þar við sat.

Stjarnan 1:4 Breiðablik opna loka
90. mín. Aron Bjarnason (Breiðablik) skorar 1:4 - Mistök í vörn Stjörnunnar og Aron sleppur í gegn. Hann er rólegur í færinu og skorar af öryggi.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert