Afturelding og Breiðablik skildu jöfn, 2:2, í fyrsta leik 14. umferðar Bestu deildar karla í fótbolta á heimavelli fyrrnefna liðsins í Mosfellsbæ í kvöld. Breiðablik er áfram í öðru sæti, nú með 27 stig og tveimur stigum á eftir Víkingi. Afturelding er áfram í sjöunda sæti með 18.
Breiðablik byrjaði með látum og Óli Valur Ómarsson skoraði fyrsta mark leiksins á 7. mínútu með glæsilegu skoti frá vinstra horni vítateigsins en hann smurði boltann í bláhornið fjær eftir sendingu frá Ágústi Orra Þorsteinssyni.
Breiðablik náði góðum kafla um miðbik fyrri hálfleiks og eftir nokkra pressu tvöfaldaði Ásgeir Helgi Orrason forskotið er hann stýrði boltanum í netið af stuttu færi eftir horn frá Valgeiri Valgeirssyni.
Afturelding gafst ekki upp og Hrannar Snær Magnússon minnkaði muninn á 44. mínútu með skalla af stuttu færi eftir góða fyrirgjöf frá Elmari Kára Enessyni Cogic og var staðan í leikhléi 2:1, Breiðabliki í vil.
Afturelding var ekki lengi að jafna í seinni því Benjamin Stokke, sem lék með Breiðabliki á síðustu leiktíð, skoraði annað mark heimamanna á 47. mínútu er hann potaði boltanum í netið af stuttu færi eftir fyrirgjöf frá Aroni Elí Sævarssyni.
Liðunum gekk illa að skapa sér færi næstu mínútur en Aron Jóhannsson átti stórhættulegt skot að marki Breiðabliks utan teigs á 80. mínútu en Anton Ari Einarsson gerði vel í að verja, þegar boltinn stefndi í hornið niðri.
Færin urðu ekki mörg eftir það, þrátt fyrir pressu gestanna og skiptu liðin því með sér stigunum.