„Ég held að þetta sé klár vítaspyrna“

Rúnar Kristinsson.
Rúnar Kristinsson. mbl.is/Eyþór Árnason

Rúnar Kristinsson þjálfari Fram var að vonum sáttur er hann mætti í viðtal til mbl.is eftir 1:0-sigur liðsins gegn ÍA í Bestu deild karla í knattspyrnu í kvöld.

Mér fannst við frábærir í fyrri hálfleik og hefðum viljað vera með tveggja til þriggja marka forystu í hálfleik.

Árni [Marinó Einarsson] á tvær stórkostlegar markvörslur og Freyr [Sigurðsson] á skalla yfir þar sem markið er opið. Við komum okkur í mjög góðar stöður, trekk í trekk og bara nýtum það ekki og förum inn með 1:0-forystu sem er aldrei sérstaklega mikið í fótbolta,“ sagði Rúnar í samtali við mbl.is eftir leik.

Rúnar vildi fá víti í upphafi síðari hálfleiks þegar markaskorarinn Vuk Óskar Dimitrijevic fór niður í teig Skagamanna.

„Ég held að ef einhverjir leikmenn eru að reyna fiska vítaspyrnu þegar þú getur ýtt boltanum yfir línuna af fjórum eða fimm metrum þá séu þeir illa staddir.

Vuk er ekki þannig að hann hendir sér niður þegar hann getur bara ýtt boltanum yfir línuna. Þannig ég held að þetta sé klár vítaspyrna og þá er það rautt spjald líka og þá erum við að tala um allt annan leik,“ sagði Rúnar.

Fram hefur verið á góðu skriði í deildinni en liðið situr í fjórða sæti með 22 stig.

„Það hefur verið ofboðslega góð ára yfir liðinu undanfarnar vikur. Menn eru að berjast fyrir hvern annan og hlaupa mikið. Þú þarft að leggja mikið á þig til að verja markið þitt í þessari deild,“ sagði Rúnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert