Lárus Orri Sigurðsson mátti þola tap í sínum fyrsta heimaleik með karlalið ÍA í knattspyrnu gegn Fram, 1:0, í 14. umferð Bestu deildarinnar á Akranesi í dag.
Sigurmark Framara kom á áttundu mínútu en það skoraði Vuk Oskar Dimitrijevic. Framliðið var mun sterkara í fyrri hálfleik en ÍA fékk mörg færi á síðustu 20 mínútum leiksins og hefði getað jafnað metin.
„Við hefðum mátt byrja leikinn betur og mátt vera nær þeim í fyrri hluta fyrri hálfleiks og vinna fleiri einvígi þá.
Fyrstu 30 mínúturnar hefðu mátt vera betri hjá okkur en við stigum upp eftir það og áttum klárlega skilið meira en núll stig úr þessum leik,“ sagði Lárus Orri í samtali við mbl.is.
Mér fannst vera smá orkuleysi í Skagaliðinu, ertu sammála því?
„Ég veit það ekki, ég held þetta hafi ekki verið orkuleysi. Við vorum eitthvað að telja þetta vitlaust. Þegar við vorum að ná í þá þá var meiri kraftur í þeim. Þú sást nú í seinni hálfleik að það vantaði ekki kraftinn í okkur þá.“
Þetta var annar leikur Lárusar með liðið en ÍA vann þann fyrsta, 2:0, gegn Vestra á Ísafirði. ÍA er þó í neðsta sæti deildarinnar með 12 stig.
„Þetta er flottur leikmannahópur með duglega drengi. Aðstaðan er frábær hérna uppi á Skaga. Við höldum áfram að vinna í okkar hlutum. Markmiðið hefur ekkert breyst, það er að halda liðinu uppi. Við stefnum á 27 stig og næsti leikur er á mánudaginn eftir viku gegn KR hér á heimavelli.“
Sigurjón Rúnarsson braut nokkuð groddaralega á Gísla Laxdal Unnarssyni í fyrri hálfleik og fékk gult spjald fyrir vikið. Þó vildu sumir Skagamenn sjá annan lit á spjaldinu.
„Ég veit það ekki, það er erfitt að meta það. Í þessum fótboltaleikjum eru alltaf einhver 50/50 atriði sem er erfitt að meta. Heilt yfir hafði dómarinn ekki mikil áhrif á þennan leik,“ sagði Lárus um spjaldið.
ÍA mætir KR í næsta leik.
„Það er spennandi verkefni, alveg eins og það var spennandi verkefni að mæta Fram í dag. Nú leggjumst við yfir KR-ingana og reynum að finna einhverjar glufur hjá þeim og hvernig best er að verjast þessum leikstíl sem þeir spila, það verður krefjandi verkefni og við erum spenntir í að takast á við það.“
Í kvöld eru írskir dagar á Akranesi og mikið stuð í bænum. Lárus segir að leikmenn fái að sleppa taumunum í kvöld.
„Já, að sjálfsögðu. Það er langt í næsta leik og menn fara og eiga góðan dag í dag. Síðan mæta menn í endurhæfingu á morgun og þá tekur við vika í undirbúning fyrir leikinn gegn KR.“
Mætir þú sjálfur?
„Nei, ég kemst ekki því miður en veit að strákarnir mæta,“ sagði Lárus á léttu nótunum.