HK vann ótrúlegan endurkomusigur á Völsungi, 3:1, í 1. deild karla í knattspyrnu í Kórnum í dag.
Úrslitin þýða að HK situr í þriðja sæti með 21 stig en Völsungur er í sjöunda sæti með 13 stig.
Elfar Árni Aðalsteinsson kom Húsvíkingum yfir á 27. mínútu þegar hann fylgdi á eftir stangarskoti og var staðan 1:0, Völsungi í vil í hálfleik.
Dagur Orri Garðarsson jafnaði metin fyrir HK þegar tíu mínútur voru eftir af leiknum með skalla eftir hornspyrnu. Hans áttunda mark á tímabilinu.
Snemma í uppbótartíma tók HK forystuna þegar Ólafur Örn Ásgeirsson markvörður HK átti gríðarlangt útspark inn fyrir vörn Völsungs og Tumi Þorvarsson skallaði boltann yfir úthlaupandi markvörðinn, 2:1.
Atli Arnarson bætti við þriðja marki HK-inga beint úr aukaspyrnu í blálokin og þar við sat.