ÍBV fékk topplið Víkings í heimsókn á nýlagt gervigrasið á Hásteinsvelli í Vestmannaeyjum í dag. Þótt að gervigrasið hafi litið vel út þá var ekki boðið upp á gæðamikinn fótbolta í dag en leikurinn endaði með markalausu jafntefli.
Eftir leikinn er Víkingur á toppi deildarinnar með 30 stig en ÍBV er í 9. sæti með 15 stig.
Leikurinn var afar bragðdaufur til að byrja með og kom fyrsta skottilraunin ekki fyrr en á 28. mínútu. Sverrir Páll Hjaltested átti hættulegustu tilraun Eyjamanna á 37. mínútu þegar skot hans fór í þverslána.
Daníel Hafsteinsson átti síðan einnig skot í þverslána rétt í þann mund er Jóhann Ingi Jónsson, góður dómari leiksins, flautaði til hálfleiks.
Seinni hálfleikurinn var ekki mikið skemmtilegri en sá fyrri. Það var mikið um stöðubaráttur inni á miðjum vellinum og liðunum gekk illa að spila í gegnum varnarmúr andstæðingsins.
Víkingur komst nálægt því að skora sigurmarkið á 86. mínútu þegar Atli Þór Jónasson skallaði í þverslána. Stuttu seinna bjargaði Felix Örn Friðriksson á marklínu og þar við sat.
Markalaust jafntefli staðreynd í bragðdaufum leik í Vestmannaeyjum.