Ótrúlega gaman að spila fótbolta

Freyr Sigurðsson fagnar marki með Fram.
Freyr Sigurðsson fagnar marki með Fram. mbl.is/Kristinn Steinn Traustason

Freyr Sigurðsson hefur komið virkilega vel inn í Framliðið og átti enn einn góða leikinn þegar Fram sigraði ÍA, 1:0, í 14. umferð Bestu deildarinnar í knattspyrnu á Akranesi í dag.

Freyr hefur verið að byrja á miðjunni hjá Fram í undanförnum leikjum ásamt Simon Tibbling og Fred Saravia og hafa þeir myndað frábært þríeyki.

„Andinn er góður í liðinu og það er frábært að spila með Fram þessa stundina. Við náum allir mjög vel saman og það er frábært að spila á miðjunni með Fred og Simon. Það er ótrúlega gaman að spila fótbolta. 

Rúnar treystir okkur og við erum á góðri siglingu. Við stefnum hátt,“ sagði Freyr við mbl.is eftir leik. 

Hefur hjálpað mér mikið

„Við ætlum að reyna vinna eins marga leiki og við getum. Fótboltinn snýst um það og við tökum einn leik í einu. Við erum allavega á góðri leið,“ bætti Freyr við. 

Freyr segir frábært að vera spila með Fred og Tibbling.

„Tibbling er ruglgóður í fótbolta og maður sér það. Fred er síðan bara Fram-goðsögn. Hann er frábær líka og það er geðveikt að spila með þeim.“

Hefur þú lært mikið af þeim?

„Já, sérstaklega af Fred. Hann hefur hjálpað mér með ýmsa hluti, segir mér hvernig á að spila og hefur verið góð fyrirmynd.“

Næsti leikur Fram er eftir nákvæmlega viku gegn Vestra í undanúrslitum bikarsins á Ísafirði.

„Við erum ekkert eðlilega peppaðir og stefnum á að vinna,“ bætti Freyr við í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert