KA fór upp úr fallsæti í Bestu deild karla í fótbolta með útisigri á KR, 2:1, á tímabundnum heimavelli KR-inga í Laugardalnum í 14. umferðinni í dag. KA er nú í tíunda sæti og með 15 stig, einu stigi meira en FH sem er komið niður í fallsæti. KR er áfram í áttunda sæti með 16 stig.
KR-ingar voru mun meira með boltann í fyrri hálfleik, eða rúmlega 70 prósent. Það gekk hins vegar illa að opna KA-liðið sem varðist aftarlega.
Hinum megin voru KA-menn hættulegir í skyndisóknum og þeir áttu tvö bestu færi fyrri hálfleiks.
Það fyrra fékk Jakob Snær Árnason er hann fékk frían skalla í markteignum en Halldór Snær Georgsson í marki KR varði vel. Mínútu síðar skaut Hallgrímur Mar Steingrímsson hárfínt framhjá utarlega í teignum eftir sendingu frá Guðjóni Erni Hrafnkelssyni.
Hinum megin var lítið um færi en það besta fékk Eiður Gauti Sæbjörnsson er hann hitti boltann illa með höfðinu í teignum. Var staðan í leikhléi því markalaus.
Hún var það einnig framan af í seinni hálfleik eða allt fram að 65. mínútu er Hallgrímur Mar Steingrímsson skoraði stórglæsilegt fyrsta mark leiksins. Hallgrímur náði í aukaspyrnu 20 metrum frá marki og skoraði úr henni sjálfur með mögnuðu skoti upp í hornið.
Fjórum mínútum síðar var Hallgrímur aftur á ferðinni er hann sendi boltann í netið úr teignum eftir magnaðan sprett frá Ingimar Torbjörnssyni Stöle. Tveimur mínútum eftir það minnkaði Aron Sigurðarson muninn með glæsilegu skoti utan teigs í bláhornið fjær.
Jóhannes Kristinn Bjarnason var nálægt því að jafna fyrir KR í uppbótartíma en William Tönning í marki KA varði stórglæsilega frá honum þegar KR-ingurinn slapp einn inn fyrir.
Reyndist það síðasta mark KR-inga og KA fagnaði sætum sigri.