„Við hefðum þurft að opna þá aðeins meira,“ sagði Óskar Hrafn Þorvaldsson þjálfari KR í samtali við mbl.is eftir tap gegn KA, 2:1, í 14. umferð Bestu deildar karla í fótbolta í dag.
„Þetta var mjög krefjandi. Það eru ekki allir sem geta opnað fimm manna varnarlínu. Þeir eru með reynda, stóra og sterka leikmenn í vörninni.
Það sem klikkar svo er að þeir fá of mikið fyrir að dúndra boltanum eitthvað og vona það besta. Það er það sem truflar mig. Mér fannst við opna þá nógu oft til að ná að klára þennan leik.
Við stjórnuðum leiknum og ég er sáttur með hvernig við vörðumst þeim þegar við töpuðum boltanum en auðvitað er hellingur sem við getum bætt. Við sendum boltann ekki nógu hratt á milli okkar til að þreyta þá meira.
Það er erfitt að opna svona varnarmúr og það er næsta verkefni. Við viljum finna stöðugar lausnir við þegar lið leggjast. Við þurfum að vera betri þegar við töpum boltanum,“ sagði Óskar um leikinn.
Hann hefur ekki teljandi áhyggjur af stöðu KR-inga, þrátt fyrir að þeir séu rétt fyrir ofan fallsætin og illa gengur að tengja saman sigra.
„Ég hefði meiri áhyggjur ef við ættum ekki séns í þessa leiki. Það er alls ekki raunin. Við líðum líka fyrir að það eru mikið um meiðsli hjá okkur og við höfum þurft að breyta vörninni nánast eftir hvern einasta leik. Þá missir liðið takt.
Ég hef enn gríðarlega trú á þessu liði og ég missi hana ekki þótt við töpum einum, tveimur eða sjö leikjum. Þetta er stærra verkefni en það að nokkrir leikir geta brotið menn,“ sagði Óskar.