Ívar Örn Árnason fyrirliði KA var kátur er hann ræddi við mbl.is í kvöld enda nýbúinn að fagna sigri á KR með liði sínu, 2:1, á útivelli í Bestu deildinni í fótbolta. KA fór upp úr fallsæti með sigrinum.
„Þetta er rosalegur léttir. Ég skil ekki hvernig við höfum tapað svona mörgum leikjum, því þetta er miklu skemmtilegra,“ sagði hann léttur og ræddi síðan um leikinn.
„KR-ingar eru ótrúlega vel drillaðir og fá alltaf sín færi. William svaraði eftir erfitt gengi í síðasta leik með risastórum tveimur vörslum. Hann gjörsamlega bjargaði okkur í lokin. Mér fannst vörnin líka standa frábærlega.
Leikurinn var mjög vel settur upp af þjálfarateyminu og öll vikan fór í að drilla færslurnar. Þeir voru að spila austur-vestur fótbolta lungað af þessum leik. Á meðan spiluðum við á föstum leikatriðum og skyndisóknum og það heppnaðist í dag.
Við fengum mark úr föstu leikatriði en ekki eins og ég sá það fyrir í dag. Svo kom annað mark eftir einstaklingsgæði frá Ingimar Stöle sem við vitum að hann býr yfir. Það klárar leikinn. Við fáum aulamark á okkur í kjölfarið og Aron er einn besti skotmaðurinn í þessari deild. Eftir það fór hausinn aftur í gang og við sigldum þessu heim,“ sagði hann.
Hallgrímur Mar Steingrímsson skoraði fyrra mark KA með glæsilegu skoti beint úr aukaspyrnu.
„Ég hélt hann væri að fara að senda á mig, galopinn á fjær, en sem betur fer gerði hann það ekki. Það er greinilega eitthvað við þennan völl. Það eru glæsileg mörk hvað eftir annað hérna,“ sagði hann.
Ívar er, eins og gefur að skilja, ánægður að vera kominn upp úr fallsæti. „Það er risastórt. Við vitum vel að við getum betur. Síðasti leikur var ekki góður en nú girtum við okkur í brók. Við höfum verið í þessari stöðu áður og það þýðir ekki að vera neikvæður,“ sagði Ívar.