Getum ekki fengið á okkur fimm mörk á heimavelli

Halldór Árnason.
Halldór Árnason. mbl.is/Ólafur Árdal

Halldór Árnason, þjálfari Breiðabliks í Bestu deild karla, var ekki sáttur með 5:4-tapið sem hans menn máttu þola í kvöld gegn FH.

„Þetta hefur eflaust verið frábært fyrir áhorfendur en við getum ekki fengið á okkur fimm mörk  á heimavelli og við getum ekki kastað heilum leik frá okkur á tíu mínútna kafla. Það er það sem ég tek út úr þessu.“

Þið leiðið 2:1 í hálfleik en svo í seinni hálfleiknum má segja að FH keyri yfir ykkur á tæplega tuttugu mínútna kafla. Hvað átti sér stað?

„Ég get ekki verið sammála því að þeir hafi keyrt yfir okkur en ég get verið sammála því að þeir voru alveg hrikalega öflugir og beinskeyttir. FH er með lið sem að vill koma boltanum hratt fram völlinn og í því eru þeir frábærir.

Þeir eru með frábæra spyrnumenn og fylla teiginn vel. Auðvitað ætlum við að komast fyrir fyrirgjafirnar þeirra og dekka þeirra menn inn í teignum en það klikkar þrívegis og það var bara of mikið í dag.“ 

Ágúst Orri Þorsteinsson úr Breiðabliki með boltann í kvöld.
Ágúst Orri Þorsteinsson úr Breiðabliki með boltann í kvöld. mbl.is/Hákon Pálsson

Þínir menn gera vel í að koma til baka úr 5:2 í 5:4 og hefðu getað jafnað leikinn, hafðirðu trú á því að þínir menn myndu jafna þetta allan tímann?

„Já, alveg klárlega. Við gerum skiptingar og það koma fimm ferskir menn inn á í erfiðri stöðu með gott hugarfar. Við hefðum viljað minnka muninn aðeins fyrr en við náum allavega að setja þetta í 5:4 og fáum sóknir til að jafna þetta. Við hendum þessu bara frá okkur í upphafi seinni hálfleiks.“ 

Þú gerir fimm breytingar á þínu liði fyrir leikinn, var það gert með leikinn í Sambandsdeildinni á fimmtudaginn í huga, er það áherslan þessa stundina?

„Já en við vildum líka verið ferskir í þessum leik og á öllum vígstöðum. Það er spilað mjög þétt, það er það sem við ætluðum okkur og við vissum hvað við værum að fara út í. Við ákváðum frá upphafi tímabils að við ætluðum að hreyfa liðið bæði innan leiks og á milli leikja til þess að reyna halda mönnum ferskum. 

Það verður bara að koma í ljós hvort þetta muni takast hjá okkur. Fyrir utan Anton Loga Lúðvíksson og Andra Rafn Yeoman eru allir heilir og, að ég held, nokkuð ferskir. Við verðum að ná að halda því áfram í gegnum þessa lotu.“

Leikurinn á fimmtudaginn er risastór á móti meisturunum frá San Marínó. Er þetta sýnd veiði en ekki gefin?

„Já, það er hægt að orða það þannig. Þeir auðvitað komust áfram með því að vinna meistarana í Moldóvu 3-0 og við þekkjum Sheriff frá Moldóvu sem yfirleitt hafa unnið mótið og farið sjö sinnum í riðlakeppni. Það er eins gott að við tökum þetta lið alvarlega og berum virðingu fyrir þeim því þetta eru stórglæsileg úrslit hjá þeim. 

Ef þú hefðir spurt mig einhvern tímann áður hvort þetta væri lið sem við ættum að klára þá hefði ég sagt já, alveg klárlega. Það hefur ekkert breyst, við ætlum okkur að vinna þetta og það hefur verið stefnan alveg frá upphafi.“ 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert