Breiðablik og FH áttust við í 19. umferð Bestu deildar karla í knattspyrnu í kvöld og lauk leiknum með frábærum 5:4-sigri FH-inga.
FH kemst með sigrinum upp í efri hluta deildarinnar með 25 stig, þetta var þeirri fyrsti sigur á gervigrasi á tímabilinu. Blikar geta verið svekktir að hafa ekki náð að sigra leikinn enda töpuðu Valsmenn gegn Eyjamönnum fyrr í dag og gátu Blikar því styrkt stöðu sína í toppbaráttunni með sigri.
FH-ingar byrjuðu leikinn betur og áttu dauðafæri strax á fimmtu mínútu leiksins þegar Kjartan Kári Halldórsson komst inn í afleita sendingu Viktors Arnar Margeirssonar til baka á Anton Ara Einarsson í markinu og reyndi að lyfta knettinum í netið en fram hjá fór hann.
Anton Ari gerði svo frábærlega í að verja frá Birni Daníel Sverrissyni í afbragðsskotfæri á 14. mínútu leiksins en Kjartan Kári hafði gert frábærlega í aðdragandanum.
Aðeins mínútu síðar áttu Blikar svo aftur lélega sendingu til baka á Anton Ara þegar Kristinn Steindórsson sendi mjög langan bolta til baka sem Sigurður Bjartur komst inn í og tókst að fara fram hjá Antoni Ara en var í þröngri stöðu og náði ekki að gera sér mat úr færinu.
FH-ingum var svo refsað á 26. mínútu þegar Davíð Ingvarsson potaði knettinum í netið eftir frábæra fyrirgjöf Kristins Steindórssonar. Staðan var orðin 1:0, þvert gegn gangi leiksins.
Kristján Flóki Finnbogason jafnaði hins vegar metin fyrir FH-inga á 33. mínútu eftir góðan undirbúning Kjartans Kára. Anton Ari var hálf hikandi í markinu og hefði átt að gera betur.
Blikar svöruðu hins vegar strax þremur mínútum síðar þegar Birkir Valur Jónsson skoraði sjálfsmark eftir að Mathias Rosenörn hafði varið meistaralega frá Davíð Ingvarssyni í aðdragandanum. 2:1 var því staðan í hálfleik.
FH-ingar komu aftur á móti inn í seinni hálfleiki í miklu stuði og jöfnuðu strax á 47. mínútu með góðum skalla Björns Daníels Sverrissonar eftir fyrirgjöf Kjartans Kára.
Það má svo segja að vendipunktur í leiknum hafi orðið þegar Breiðhyltingurinn Bragi Karl Bjarkason kom inn á völlinn í stað Kristjáns Flóka Finnbogasonar á 54. mínútu. Aðeins fjórum mínútum síðar voru FH-ingar komnir í 4:2 eftir tvö glæsileg mörk frá Braga Karli. Hans fyrstu mörk í sumar.
FH-ingar voru svo í hörkustuði áfram eftir þetta og á 67. mínútu kom fimmta markið þegar Sigurður Bjartur stangaði inn fyrirgjöf frá Birki Val Jónssyni.
Kristófer Ingi Kristinsson minnkaði muninn á 84. mínútu með föstu skoti í nærhornið. Mathias Rosenörn var líklega svekktur að verja ekki skotið. Ásgeir Helgi kom svo Blikum í 5:4 á 89. mínútu með góðum skalla eftir fyrirgjöf Kristins Jónssonar en lengra komust Blikar ekki. Sigur FH var því staðreynd.