„Þetta var einbeitingarleysi,“ sagði Ingvar Jónsson, markvörður Víkings úr Reykjavík, í samtali við mbl.is eftir jafntefli við Breiðablik, 2:2, í Bestu deildinni í fótbolta í kvöld. Víkingur var með 2:1-forystu og manni fleiri en Blikum tókst að jafna.
„Við gefum þeim föst leikatriði sem við vorum í vandræðum með og þeir nýttu sér það. Anton hélt þeim svo inn í þessu hinum megin. Við erum auðvitað mjög svekktir,“ sagði Ingvar, sem er nokkuð ánægður með spilamennsku Víkings í kvöld.
„Mér fannst hún fín. Við vorum orkumiklir og góðir. Við fengum fullt af færum og hefðum átt að klára þetta í stöðunni 2:1.“
Troðfullt var í stúkunni í Víkinni í kvöld og svakaleg stemning.
„Þessi lið hafa barist um titilinn undanfarin ár og það er alltaf spennandi að mæta Blikunum. Það er geggjað að spila svona leik í svona stemningu. Við erum samt svekktir að gefa stuðningsmönnum ekki þrjú stig,“ sagði Ingvar.

