Höskuldur Gunnlaugsson fyrirliði Breiðabliks var nokkuð sáttur er hann ræddi við mbl.is eftir jafntefli, 2:2, gegn Víkingi úr Reykjavík í Bestu deild karla í fótbolta í Víkinni í kvöld. Breiðablik var manni færri og marki undir en tókst að jafna.
„Það kom meðbyr með okkur í lokin í hættulegum skyndisóknum. Við erum með mikinn hraða í Ágústi og Davíð og við vorum ekki langt frá því að refsa í upphlaupunum. Við fáum góðar stöður í föstum leikatriðum líka.
Úr því sem komið var, að fá rauða spjaldið á okkur snemma í seinni hálfleik og svo mark í kjölfarið, þá verður það að teljast helvíti sterkt að sækja stig á erfiðum útivelli,“ sagði Höskuldur.
Hann var sammála ofanrituðum um að leikurinn hafi verið hin mesta skemmtun í fyrri hálfleik og fram að rauða spjaldinu sem Viktor Karl Einarsson fékk snemma í seinni hálfleik.
„Mér fannst þetta frábær leikur og mjög skemmtilegur. Við vorum sammála inni í klefa eftir fyrri hálfleik að þetta hafi verið helvíti gaman. Það var leiðinlegt fyrir leikmenn að þetta rauða spjald kom og það getur verið erfitt fyrir liðið sem er manni fleiri líka. Svo leiðinlegt fyrir áhorfendur líka.
Þeir tóku aðeins yfir eftir rauða spjaldið og skoruðu. En svo fannst mér þeir fara að verja fenginn hlut og við hugsuðum fokk it, við ætluðum að vera hugrakkir. Þjálfarateymið gerði svo góðar breytingar og við vorum vissir um að við gætum skorað,“ sagði hann.
Stúkan í Víkinni var full í kvöld og mikil læti í stuðningsmönnum, þjálfarateymum og leikmönnum. Það er öðruvísi þegar þessi lið mætast og meira undir.
„Þetta eru algjör forréttindi og maður kann enn betur að meta þetta eftir því sem maður verður eldri. Þetta er ekkert sjálfgefið. Vonandi heldur þetta svona áfram. Þetta eru skemmtilegir leikir fyrir alla.
Valur tapaði fyrir Fram í kvöld sem þýðir að Breiðablik er sjö stigum frá toppnum og með leik til góða.
„Það þýðir að þetta var stig sem við sækjum á toppinn. Við tökum þessu sem jákvæðu stigi. Það var ekki að sjá að það væru þreyttar lappir hjá okkur, þrátt fyrir frekar langt ferðalag í Evrópu. Það er góður andi í hópnum og maður er helvíti spenntur fyrir framhaldinu,“ sagði Höskuldur.