Blikar höfnuðu tilboði frá Póllandi

Ágúst Orri Þorsteinsson.
Ágúst Orri Þorsteinsson. mbl.is/Eyþór Árnason

Breiðablik hafnaði tilboði frá Póllandi í knattspyrnumanninn Ágúst Orra Þorsteinsson í gær.

Alfreð Finnbogason, tæknilegur ráðgjafi knattspyrnudeildar Breiðabliks, staðfesti þetta í samtali við fótbolta.net í dag.

Fótbolti.net greinir meðal annars frá því að tilboðið hafi hljóðað upp á 60 milljónir íslenskra króna en hann er uppalinn hjá Kópavogsliðinu.

„Ég get staðfest að það kom tilboð í Gústa en við mátum það þannig að það væri eiginlega ómögulegt að selja hann þar sem glugginn á Íslandi er lokaður,“ sagði Alfreð meðal annars.

Hann hefur skorað eitt mark í 19 leikjum í Bestu deildinni í sumar en hann gekk til liðs við Blika fyrir tímabilið frá Genoa á Ítalíu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert