FHL er fallið úr Bestu deild kvenna í knattspyrnu eftir 5:1 tap gegn ríkjandi Íslandsmeisturum Breiðabliks í Neskaupstað í dag.
Með sigrinum styrkir Breiðablik stöðu sína á toppi deildarinnar ásamt því að gera út um alla von Austfirðinga um að spila í deild þeirra bestu næsta sumar.
Björg Gunnlaugsdóttir átti fyrsta færi leiksins, strax á 1. mínútu þegar hún vann boltann af vörn Breiðabliks og náði fínu skoti á markið, en Katherine Devine varði vel í markinu og kom boltanum í horn.
Eftir að hafa verið ólíklegri fyrstu mínúturnar voru það þó gestirnir úr Kópavogi sem skoruðu fyrsta mark leiksins og komu stöðunni í 1:0 eftir tæplega 10 mínútna leik.
Þá fékk Agla María Albertsdóttir, fyrirliði Breiðabliks, stungusendingu inn fyrir vörn FHL, keyrði á markið og lagði hann á Birtu Georgsdóttur sem kláraði í fjærhornið af miklu öryggi.
Næstu mínútur leiksins færðist aukinn kraftur í Breiðablik sem hélt boltanum betur og sótti ákaft en tókst ekki að skapa hættuleg færi.
Það dró því ekki aftur til tíðinda fyrr en á 40. mínútu, en þá kom Heiða Ragney Viðarsdóttir boltanum í netið með hárnákvæmu skoti eftir laglegan undirbúning Hrafnhildar Ásu Halldórsdóttur.
Gestirnir úr Kópavogi voru ekki lengi að stimpla sig inn í seinni hálfleik, en eftir einungis fimm mínútna leik stangaði Berglind Björg Þorvaldsdóttir boltann í netið eftir frábæra fyrirgjöf Öglu Maríu af vinstri kantinum.
Einungis þremur mínútum síðar átti Agla María sína þriðju stoðsendingu en í þetta skiptið á Birtu Georgsdóttur sem bætti við sínu öðru marki þegar hún kom boltanum í netið af stuttu færi framhjá Keelan í marki FHL.
Birta fullkomnaði síðan þrennuna með frábæru einstaklingsframtaki stuttu seinna, á 56. mínútu, þegar hun sótti að vörn FHL vinstra megin úr teignum og skrúfaði boltann í netið.
Markahrynunni lauk tveimur mínútum seinna þegar FHL klóraði í bakkann með marki úr skyndisókn frá Christu Björg Andrésdóttur eftir fyrirgjöf Calliste Brookshire. Staðan 5:1 Blikum í vil eftir tæplega 60 mínútna leik.
Það sem eftir lifði leiks héldu Blikar áfram að hafa tök á leiknum en FHL tókst samt sem áður að skapa nokkur álitleg færi. Hvorugu liðinu tókst þó að koma boltanum í netið og lokatölur 5:1.
Sannfærandi sigur Breiðabliks á Neskaupstað staðreynd og liggur því nú ljóst fyrir að FHL hefur leik í Lengjudeild kvenna á næsta ári.