Blikar sendu FHL niður um deild

Blikar heimsækja botnlið FHL í dag.
Blikar heimsækja botnlið FHL í dag. mbl.is/Birta Margrét

FHL er fallið úr Bestu deild kvenna í knattspyrnu eftir 5:1 tap gegn ríkjandi Íslandsmeisturum Breiðabliks í Neskaupstað í dag. 

Með sigrinum styrkir Breiðablik stöðu sína á toppi deildarinnar ásamt því að gera út um alla von Austfirðinga um að spila í deild þeirra bestu næsta sumar.

Blikar hrukku í gang eftir tíu mínútur

Björg Gunnlaugsdóttir átti fyrsta færi leiksins, strax á 1. mínútu þegar hún vann boltann af vörn Breiðabliks og náði fínu skoti á markið, en Katherine Devine varði vel í markinu og kom boltanum í horn. 

Eftir að hafa verið ólíklegri fyrstu mínúturnar voru það þó gestirnir úr Kópavogi sem skoruðu fyrsta mark leiksins og komu stöðunni í 1:0 eftir tæplega 10 mínútna leik.

Þá fékk Agla María Albertsdóttir, fyrirliði Breiðabliks, stungusendingu inn fyrir vörn FHL, keyrði á markið og lagði hann á Birtu Georgsdóttur sem kláraði í fjærhornið af miklu öryggi. 

Rósey Björgvinsdóttir og liðsfélagar hennar í FHL leika í Lengjudeild …
Rósey Björgvinsdóttir og liðsfélagar hennar í FHL leika í Lengjudeild kvenna næsta sumar. mbl.is/Ólafur Árdal

Heiða Ragney tvöfaldaði forystu Breiðabliks

Næstu mínútur leiksins færðist aukinn kraftur í Breiðablik sem hélt boltanum betur og sótti ákaft en tókst ekki að skapa hættuleg færi.

Það dró því ekki aftur til tíðinda fyrr en á 40. mínútu, en þá kom Heiða Ragney Viðarsdóttir boltanum í netið með hárnákvæmu skoti eftir laglegan undirbúning Hrafnhildar Ásu Halldórsdóttur. 

Markaregn í seinni hálfleik

Gestirnir úr Kópavogi voru ekki lengi að stimpla sig inn í seinni hálfleik, en eftir einungis fimm mínútna leik stangaði Berglind Björg Þorvaldsdóttir boltann í netið eftir frábæra fyrirgjöf Öglu Maríu af vinstri kantinum. 

Einungis þremur mínútum síðar átti Agla María sína þriðju stoðsendingu en í þetta skiptið á Birtu Georgsdóttur sem bætti við sínu öðru marki þegar hún kom boltanum í netið af stuttu færi framhjá Keelan í marki FHL. 

Birta fullkomnaði síðan þrennuna með frábæru einstaklingsframtaki stuttu seinna, á 56. mínútu, þegar hun sótti að vörn FHL vinstra megin úr teignum og skrúfaði boltann í netið. 

Erfið staða fyrir FHL eftir klukkutíma leik

Markahrynunni lauk tveimur mínútum seinna þegar FHL klóraði í bakkann með marki úr skyndisókn frá Christu Björg Andrésdóttur eftir fyrirgjöf Calliste Brookshire. Staðan 5:1 Blikum í vil eftir tæplega 60 mínútna leik. 

Það sem eftir lifði leiks héldu Blikar áfram að hafa tök á leiknum en FHL tókst samt sem áður að skapa nokkur álitleg færi. Hvorugu liðinu tókst þó að koma boltanum í netið og lokatölur 5:1. 

Sannfærandi sigur Breiðabliks á Neskaupstað staðreynd og liggur því nú ljóst fyrir að FHL hefur leik í Lengjudeild kvenna á næsta ári.

FHL 1:5 Breiðablik opna loka
90. mín. Venjulegur leiktími liðinn. Geri ráð fyrir að það verði allavega einhverju bætt við þar sem leikurinn stöðvaðist þegar hlúa þurfti að Róseyju.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert