Valur sigraði Tindastól, 6:2, á heimavelli í 17. umferð Bestu deildar kvenna í fótbolta á heimavelli sínum á Hlíðarenda í dag. Með sigrinum fór Valur upp í 27 stig og í fjórða sæti. Tindastóll er áfram í níunda sæti með 17 stig, einu stigi frá öruggu sæti.
Valskonur voru sterkari í upphafi leiks og Arnfríður Auður Arnarsdóttir kom Val yfir á 6. mínútu með glæsilegu skoti upp í samskeytin eftir gott spil heimakvenna.
Aðeins fimm mínútum síðar tvöfaldaði Fanndís Friðriksdóttir forskotið er hún slapp í gegn eftir langan bolta fram frá Tinnu Brá Magnúsdóttur í marki Vals.
Valur var áfram sterkari aðilinn eftir annað markið og Ragnheiður Þórunn Jónsdóttir fékk tvö úrvalsfæri til að skora á 24. mínútu en Genevive Crenshaw varði glæsilega í bæði skiptin.
Á 29. mínútu fékk Tindastóll sína fyrstu hornspyrnu og eftir hana skoraði Makala Woods úr fyrstu tilraun gestanna. Hún afgreiddi þá boltann í netið af stuttu færi eftir sendingu frá Maríu Dögg Jóhannesdóttur og mistök hjá Tinnu í markinu.
Átta mínútum síðar var staðan orðin jöfn, 2:2. Aldís María Jóhannsdóttir skoraði þá af stuttu færi eftir önnur mistök hjá Tinnu sem kýldi boltann í Katherine Pettit og var eftirleikurinn auðveldur fyrir Aldísi, með autt mark fyrir framan sig.
Valsliðið var líklegra til að skora fimmta mark leiksins það sem eftir lifði fyrri hálfleiks en það tókst ekki og voru hálfleikstölur eftir kaflaskiptan fyrri hálfleik 2:2.
Valur komst aftur yfir á 54. mínútu þegar Fanndís skoraði sitt annað mark með stórglæsilegu skoti vinstra megin í teignum í stöng og inn úr þröngu færi eftir sendingu frá Arnfríði.
Valskonur náðu svo aftur tveggja marka forskoti á 63. mínútu þegar Berglind Rós Ágústsdóttir skoraði með fallegu skoti utan teigs eftir þunga sókn og tvær hornspyrnur sem gestirnir réðu illa við.
Fanndís fullkomnaði svo þrennuna þegar hún gerði fimmta mark Vals á 73. mínútu með glæsilegu skoti utan teigs upp í skeytin fjær.
María Dögg Jóhannesdóttir skoraði svo sjálfsmark í uppbótartíma og stórsigur Vals vað raunin.