FH-ingar öryggir í efri hlutanum

Ahmad Faqa og Kennie Chopart eigast við í Kaplakrika í …
Ahmad Faqa og Kennie Chopart eigast við í Kaplakrika í dag. mbl.is/Birta Margrét

FH tók á móti Fram í 22. umferð Bestu deildar karla sem er jafnframt síðasta umferð fyrir skiptingu deildarinnar í efri og neðri hluta og lauk leiknum með 2:2 jafntefli.

Eftir leikinn eru FH-ingar með 30 stig en Fram er með 29 stig. Með þessum úrslitum eru bæði lið að enda í efri hlutanum að því gefnu að ÍBV vinni ekki Breiðablik á morgun. Vinni ÍBV þá fer Fram niður í neðri hlutann.

Það var barátta í leiknum allt frá byrjun og notuðu liðin fyrsta korterið til að þreifa á boltanum og róa taugarnar. Á 16. mínútu kom hins vegar fyrsta mark leiksins. Það skoraði Israel Garcia Moreno með skoti beint utan teigs í bláhornið vinstra megin eftir sendingu frá Frey Sigurðssyni. Staðan var orðin 1:0 fyrir Framara sem á þessum tímapunkti voru þá öryggir í efri hluta deildarinnar eftir skiptingu.

Eftir þetta jók FH sóknarþunga sinn sem gerði það að verkum að Framarar gátu gert það sem þeir eru góðir í, að beita skyndisóknum. FH-ingar voru nokkrum sinnum nálægt því að komast í dauðafæri en í öll skiptin vantaði smiðshöggið sem gerði það að verkum að færin voru aldrei meira en hálffæri.

Staðan í hálfleik var 1:0 fyrir Fram.

Fram byrjaði seinni hálfleikinn betur en fyrsta færi seinni hálfleiks var þó FH þegar Sigurður Bjartur Hallsson skallaði boltann rétt fram hjá eftir sendingu frá Birki Val Jónssyni.

Á 58. mínútu munaði engu að Israel Garcia Moreno tvöfaldaði forystu Fram og á sama tíma markaskorun sína í leiknum þegar hann skaut boltanum utan vítateigs að samskeytunum í marki FH en Mathias Brinch Rosenorn varði meistaralega í markinu.

Á markamínútunni miklu jafnaði FH leikinn. Bjarni Guðjón Brynjólfsson gaf boltann á Björn Daníel Sverrisson sem skaut gríðarlega föstu skoti upp í hornið fjær og skoraði. Staðan var orðin 1:1 á 69. mínútu leiksins.

Bjarni Guðjón var síðan sjálfur á ferðinni á 72. mínútu þegar hann þræddi sig inn í teig Fram og skoraði af miklu öryggi. Þess skal getið að Bjarni Guðjón hafði komið inn á sem varamaður nokkrum mínútum fyrir jöfnunarmark FH og var þarna kominn með stoðsendingu og mark.

Á 81. mínútu kom Jóhann Ægir Arnarsson inn á völlinn fyrir Björn Daníel Sverrisson. Það er ekki í frásögur færandi nema fyrir það að á 83. mínútu fékk Jóhann Ægir beint rautt spjald fyrir ljóta tæklingu. Mögulega full strangur dómur en heldur ekki rangur dómur.

Fram lagðist í kjölfarið algjörlega fram og FH var í raun með 10 varnarmenn og markvörð restina af leiknum. Það gaf á endanum jöfnunarmark því þegar leikurinn var kominn inn í aðra mínútu uppbótartíma átti Simon Tibbling fyrirgjöf sem Sigurjón Rúnarsson náði að pota yfir marklínu FH eftir að Hafnfirðingum hafði mistekist að koma boltanum frá.



FH 2:2 Fram opna loka
90. mín. 7 mínútum bætt við.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert