KA og Vestri verða í neðri hlutanum

Gunnar Jónas Hauksson sækir að Akureyringum í leik liðanna á …
Gunnar Jónas Hauksson sækir að Akureyringum í leik liðanna á síðustu leiktíð. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

KA vann mikilvægan sigur á Vestra í 22. umferð Bestu-deildar karla í fótbolta í dag, 4:1. KA lyfti sér upp í 7. sæti deildarinnar þar sem FH og Fram gerðu jafntefli á sama tíma.

Vestri er í 9. sæti og er liðið komið í ansi mikla fallhættu eftir frábæra byrjun á Íslandsmótinu. KA er með 29 stig en Vestri 27.

Leikurinn var töluvert harður og nokkuð um árekstra og pústra, sérstaklega í fyrri hálfleik. Vestramenn sóttu meira í fyrri hálfleik og voru að ógna marki KA. Í upphafi leiks vildi Vestri fá víti en ekkert var dæmt. Skömmu síðar snérist dæmið við og aftur var ekkert dæmt. Dómarinn Jóhann Ingi Jónsson og aðstoðarmenn hans gerðu líklegast rétt í báðum tilvikum.

Það kom þó að því að dómararnir sáu sér ekki annað fært en að dæma vítaspyrnu. Birgir Baldvinsson var felldur af Morten Hansen og Jóhann Ingi benti á vítapunktinn. Hallgrímur Mar Steingrímsson tók vítið og skoraði af öryggi. Staðan var svo 1:0 í hálfleik og lítið um tíðindi eða færi.

Barningur í seinni hálfleik

Seinni hálfleikurinn var sami barningurinn. Vestri sótti stíft fyrsta kortérið og uppskar vítaspyrnu eftir brot á Gunnari Jónasi Haukssyni. Diego Montiel skoraði örugglega úr henni og jafnaði í 1:1. Við markið komu KA-menn upp úr startblokkunum og tóku leikinn nánast yfir. Tvö mörk á tíu mínútum komu KA í 3:1 og svo kom fjórða markið skömmu síðar. Hans Viktor Guðmundsson, Birnir Snær Ingason og Hallgrímur Mar skoruðu mörkin.

Nú taka við síðustu fimm umferðir deildarinnar og bæði KA og Vestri munu vera í neðri hluta deildarinnar. Bíður þeirra hatrömm barátta un að halda sér áfram í Bestu-deildinni.

KA 4:1 Vestri opna loka
90. mín. Vestri fær hornspyrnu
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert